140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að ef menn vilja horfa sanngjarnt á þessi mál hljóti það að vera réttur alþingismanna að kynna sér þau mál sem lágu hér fyrir fyrst eftir hádegi. Ef við gætum sanngirni og förum faglega yfir þetta er eðlilegt að alþingismenn fái að kynna sér þær tvær skýrslur sem hér liggja fyrir, ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, sama hvort við tilheyrum stjórn eða stjórnarandstöðu. Höfum við ekkert lært af því hvernig við höfum hagað störfum okkar á undangengnum árum? Ég ætla svo sem ekkert að nefna einstök mál í því samhengi.

Ég beini því til frú forseta að við fáum tóm til að kynna okkur þessar skýrslur. Það er ómögulegt að standa í einhverju stappi um að ræða svo sjálfsagðan hlut sem það er að fá að kynna sér gögn áður en við göngum til afgreiðslu um svona mikilvægt mál. Ég bið því frú forseta, sem er forseti okkar allra, að gera hlé á þingfundi (Forseti hringir.) og leyfa okkur þingmönnum að fara yfir umrædda pappíra.