140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

lengd þingfundar.

[16:32]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Verið er að fara fram á að lengja þingfund fram á kvöld og fram í nóttina til að ræða fjáraukalög, fjáraukalög sem eru vanbúin, illa unnin og upplýsingar vantar um hvað á að ræða. Beðið er eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda en það liggur svo mikið á að ekki má bíða eftir þeirri skýrslu og lesa hana áður en á að afgreiða fjárlögin, þó er um að ræða skýrslu um atriði sem á einmitt að fara að greiða atkvæði um í fyrramálið. (Gripið fram í: Þetta er velferðarstjórnin.) Þetta eru ótrúleg vinnubrögð á Alþingi Íslendinga. Mér finnst dapurlegt að horfa upp á þau.

Ég hvet forseta til að fresta þessu máli og að hafa ekki kvöldfund og gefa þinginu einfaldlega það ráðrúm sem þarf til þess að afgreiða fjáraukalög. Þetta er alveg ótrúleg staða að horfa upp á. Ég mun ekki taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu. Ég lýsi einfaldlega frati á þessi vinnubrögð, frú forseti.