144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

[10:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég veit ekki einu sinni hvort þetta svar fellur undir það að hægt sé að segja að hæstv. ráðherra sé að vinna þetta mál á hraða snigilsins. Það kemur skýrt fram hjá hæstv. ráðherra að það sem var lagt fyrir hana, sem var ein af niðurstöðum umræðunnar á Alþingi, þar sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir að sé mikilvæg, sem er ein af helstu tillögunum í ráðgjafarhóp ráðherra, hefur ekki verið unnið. Hæstv. ráðherra segir að ekki sé tímabært að fara í þessar viðræður vegna þess að hún hefur ekki unnið heimavinnuna sína. Þannig er það.

Það kom fram á ráðstefnu hér í september að hún hafði ekkert gert til þess að undirbúa. Hún hafði ekki farið eftir því sem þingið sagði, ekki eftir því sem þessar stofnanir höfðu sagt.

Það er rétt að fram komi að hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi Landsvirkjunar að hann teldi að það væri ekki eftir neinu að bíða. Það kom fram fyrirspurn um norskan og íslenskan streng í breska þinginu um daginn og var sagt frá því hvað var að gerast gagnvart Noregi, en um Ísland var sagt: Það er enn þá beðið eftir því að Íslendingar segi hvað þeir vilji. Með öðrum orðum, Íslendingar vita ekki hvað þeir vilja í þessu mikla hagsmunamáli (Forseti hringir.) vegna þess að hæstv. ráðherra vinnur ekki heimavinnuna.