145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þá verð ég náttúrlega að spyrja því að mig langar til að fá að vita hvað hv. þingmaður haldi að búi að baki því að við séum allt í einu komin í einhvern miðstýringarfasa þegar kemur að stofnanaumhverfi. Ef þetta snýst ekki um stofnanafyrirkomulagið í sjálfu sér heldur efnistök stofnunarinnar, væri þá ekki hægt að eiga málefnalega umræðu um það hvert verksvið hennar væri? Væri það ekki eitthvað sem við gætum tekið á einhverjum fundum og reynt að finna út ef það er eitthvert vandamál með þessa stofnun? Hún virðist vinna gott verk. Hún virðist gera allt sem hún þarf að gera og á að gera samkvæmt skilgreindu hlutverki. Hún virðist ekki eyða um efni fram eða fela í sér einhvern sérstakan kostnað. Þetta stofnanaumhverfi virðist henta þessari tilteknu starfsemi mjög vel.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé einhver þróun sem verði víðtækari, að við séum að færa stofnanir aftur inn í ráðuneyti. Það er þá á skjön við allt sem hefur verið að gerast undanfarin 20–30 ár til að reyna að minnka miðstýringu og auka valddreifingu með því að stuðla að gegnsærri stjórnsýslu og dreifðri ákvarðanatöku. Er þetta ekki kjörið tækifæri til þess að fá sérmenntað fólk til að taka ákvarðanir á sínu sviði sem það er búið að sérmennta sig í? Er þetta ekki kjörið tækifæri til þess að gefa vel menntuðu fólki sérstakt starf og sérstaka ábyrgð? Er eitthvað að því? Hvað liggur þarna að baki? Er verið að breyta stofnanaumhverfi (Forseti hringir.) Íslands almennt með því að gera þetta?