146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekin sjúkrahúsþjónusta.

[11:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég mun höggva í sama knérunn og þeir tveir þingmenn sem hófu umræðuna í dag. Heilbrigðisþjónusta hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni á Alþingi að undanförnu og er það vel. Fregnir af grundvallarstefnubreytingu í framkvæmd þjónustunnar hafa skekið samfélagið nokkuð, þ.e. að færa einkaaðilum til rekstrar sérhæfða sjúkrahússtarfsemi til að græða á henni. Þarna er lagt út á brautir sem ekki sér fyrir endann á, brautir sem erlendar þjóðir, ekki langt frá okkur, þekkja og mæla ekki bót.

Enn er áréttað að 80% þjóðarinnar segja aðspurð í könnunum: Við viljum að heilbrigðisþjónusta sé skipulögð og starfrækt af hinu opinbera. Þjóðin hefur eindregna skoðun.

Opinbert heilbrigðiskerfi er fjársvelt og fær ekki að starfa á fullum afköstum. Góð aðstaða á vel búnum heilbrigðisstofnunum í eigu verkkaupa sjálfs, hins opinbera, er vannýtt. Þessar stofnanir kalla eftir fleiri verkefnum. Ekkert heildstætt skipulag ríkir um framkvæmd heilbrigðisþjónustu í landinu og hentistefna og pólitískar áherslur ráðherra hverju sinni ráða för. Látið er reka fyrir vindi.

Fyrir þinginu liggur tillaga um heilbrigðisáætlun eða skipulag heilbrigðisþjónustunnar á öllu landinu og sömuleiðis liggur fyrir þinginu frumvarp til laga um breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem taka á þáttum sem skerpa á þeim atriðum sem við ræðum um.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Önnur þeirra hefur nú að hluta til komið fram: Þegar háttar til eins og hér hefur verið lýst, hyggst ráðherra í alvöru stíga þau skref að veita einkarekinni starfsstöð í heilbrigðisþjónustu heimild til sjúkrahússtarfsemi í samræmi við umsókn sem fyrir liggur? Og jafnframt: Í ljósi þess að eitt af meginhlutverkum embættis landlæknis er að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf og fræðslu á málefnasviði embættisins spyr ég: Hefur ráðherra óskað eftir umsögn landlæknis um það hvort embættið telji þetta skynsamlega, farsæla og hagkvæma leið fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi?