146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:36]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þótt ég sé þakklát fyrir að hann taki þátt í umræðunni um frumvarpið get ég ekki verið neitt sérstaklega ánægð með ræðuna. En það er önnur saga og við því var að búast.

Hv. þingmaður talar mikið um samstöðu. Það er einmitt í þeim anda sem frumvarpið er lagt fram. Ég vil breyta kerfinu í heild. Ég er sannfærð um að útboð á aflaheimildum sem er leitt inn í varfærnum skrefum muni verða gott bæði fyrir útgerðina og fólkið í landinu. En það er ekki það sem ég er að leggja til hér. Ég er að leggja til að við tökum örlítið skref, tökum bara viðbótarkvótann og bjóðum hann út. Það breytir þá engu fyrir þá sem eru með kvóta fyrir og við getum æft okkur í að bjóða út og athuga hvort hugsanlega sé hægt að ná samstöðu um þá leið.

Hv. þingmaður gagnrýnir að bara sé talað um þorskkvótann. Það var einmitt líka til að hafa þetta einfalt, að taka bara þorskkvótann. En nú er hv. þingmaður í atvinnuveganefnd þangað sem frumvarpið fer til umræðu. Ég vona þá að hann leggi til að það verði viðbótarkvóti í öllum greinum sem verði undir svo það sé ekki verið að taka eina grein út. Ég spyr hvort honum lítist þá betur á að gera þetta þannig, þetta tilraunaskref.

Ef við gerum ekki tilraunir er ekki líklegt að við náum að smíða leið sem er farsæl. Þetta er lítil og góð tilraun.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur áhyggjur af afkomu útgerðarinnar og lántöku fyrir kvóta eða útboði, hvernig honum lítist á þá hugmynd sem ég veit að Færeyingar (Forseti hringir.) eru að ræða, að þeir þurfi ekki að greiða fyrr en þeir landa.