148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[19:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu. Jafnframt vil ég þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hennar fyrir að leggja fram þetta mikilvæga frumvarp og vekja upp þessa umræðu sem ég held að sé mjög mikilvæg.

Ég verð að viðurkenna að þetta er kannski eitt af þeim málum sem manni finnast svo fjarstæðukennd að maður hafði hreinlega ekki áttað sig á að þau væru leyfð. Eitt af því sem ég hafði hugsað mér að spyrja hv. þingmann um er fjölda slíkra aðgerða sem framkvæmdar eru hér, en hún kom reyndar inn á að það færi ólíkum sögum af því, tölur væru mismunandi, og nauðsynlegt að fá betur úr því skorið nákvæmlega hver fjöldi slíkra aðgerða sé.

En þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í hvort það séu einhver lönd sem banni umskurð drengja, hvort hún viti til þess. Og þá jafnframt þá yfirlýsingu sem umboðsmenn barna á Norðurlöndum skrifuðu undir og voru þá að hvetja til þess að slíkt yrði bannað. Hvort hún hafi einhverja vitneskju um hvernig umræðan hefur þróast, alla vega á Norðurlöndunum, og jafnvel þótt víðar væri.

Annars þakka ég fyrir að fá að taka þátt í þessari umræðu.