149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ávana- og fíknivandinn hefur tekið á sig ýmsar myndir en þó aldrei eins skelfilegar og nú. Árið 2015 létust 15 einstaklingar af völdum fíknisjúkdóma en það sem af er þessu ári eru þeir orðnir tæplega 40.

Það er sárara en tárum taki þegar maður hugsar til þess að árið 2018 deyja fleiri af völdum fíknisjúkdóma á aldursbilinu 18–40 ára en úr öllum öðrum sjúkdómum á Íslandi samanlagt það ár. Það eru 600 fíklar sem biðja um hjálp og eru á biðlista á Vogi. Það er dauðans alvara að koma ekki til móts við þetta fólk.

Það er á ákveðnum tímapunkti sem fíkillinn stígur út fyrir rammann og fær tilfinningu fyrir því að hann vilji hjálp og vilji komast í meðferð. En þá er hann látinn bíða. Hann er sjúklingur, hann er veikur og þessi vilji hans á þessum tímapunkti fjarar út. Hann getur verið dáinn, loksins þegar röðin kemur að honum.

Það kostar okkur 200 millj. kr., virðulegi forseti, að eyða biðlistum á Vogi. Í stað þess að taka sex einstaklinga inn daglega getum við tekið átta. Við erum að tala um 200 millj. kr.

Það er allt í lagi að skipta upp ráðuneytum, það kostar bara 70 milljónir. Það er allt í lagi að setja 500 milljónir í bókaútgefendur af því að við viljum verja íslenska tungu og ekki mæli ég því í mót. En hvernig væri að fara að setja fólkið okkar í fyrsta sæti? Hvernig væri að fara að forgangsraða fjármunum í þágu fólksins í landinu og í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda?

Ég segi bara: Það biður enginn um að lenda í þeirri gildru að þurfa að glíma við fíknisjúkdóm en að hið opinbera skuli vera búið að kasta af sér allri ábyrgð og skuli loka svona gjörsamlega augunum fyrir því hversu alvarlegt ástandið er er sárara en tárum taki. (Forseti hringir.)

Ég segi: Kæru konur, kæru landsmenn og við öll, til hamingju með daginn í dag.