151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

útflutningur á óunnum fiski.

[14:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Það er nú einu sinni þannig að það er ekki nóg að ræða hlutina, það þarf líka að framkvæma. Þessi útflutningur er orðinn allt of mikill, ég held að allir séu sammála um það.

En ég er með aðra spurningu: Getur hæstv. ráðherra hugsað sér að breyta aflareglu tímabundið í helstu tegundum nytjastofna meðan slæmt atvinnuástand varir og auka þannig vinnslu og veiðar, sem myndi skila sér í aukinni atvinnu og auknum tekjum þjóðarbúsins?

Að lokum vil ég segja þetta, herra forseti: Það eru hagsmunir þjóðarinnar í heild að verðmætasköpun úr sameiginlegri auðlind hennar verði sem mest innan lands. Það er pólitísk ákvörðun að sem mestur afli sé unninn hér heima. Það er pólitískur ótti hjá Sjálfstæðisflokknum við að taka þá ákvörðun og virðist hann ganga framar hagsmunum þjóðarinnar. Við getum ekki treyst því að hagnaðardrifin fyrirtæki í sjávarútvegi muni gera það sem er best fyrir þjóðina. Það er hlutverk stjórnmálamanna að verja störfin innan lands á erfiðum tímum. (Forseti hringir.) Þeir verða að hafa kjark til þess.