151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

23. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bað um að fá að fara í andsvar þegar hv. þm. Smári McCarthy sagði að hann væri alls ekki að reyna að flækja hlutina. En honum tókst það svo sannarlega, alla vega fyrir flest fólk, hugsa ég, sem er ekki mjög mikið inni í þessum málum. Mér varð bara hugsað til þess hvort hv. þingmaður væri ekki örugglega sammála þessari nálgun hérna en hann skrifar að sjálfsögðu undir nefndarálitið og sagði svo í lok ræðu sinnar að hann fagnaði þessu frumvarpi.

Bara svo að því sé til haga haldið þá man ég mjög vel eftir því þegar við fjölluðum um þetta mál þegar það kom inn í utanríkismálanefnd á sínum tíma, sem þetta lagafrumvarp byggist svo á. Ég held að við höfum, almennt talið — og ég held meira að segja að Neytendasamtökin hafi skrifað okkur umsögn þá líka — fagnað mjög þessu skrefi. Ég veit að fólk á Íslandi verslar mjög mikið orðið á netinu og margir hafa lent í því að vera búnir að velja sér eitthvað á netinu og svo allt í einu kemur í ljós þegar á að ganga frá kaupum að þar segir: Nei, heyrðu, ég sel þér ekki af því þú ert á Íslandi og tek ekki svona kreditkort og annað. Því miður breytir þetta ekki því að við gætum enn þá lent í því þegar kemur að því að versla á bandarískum síðum því að þetta er auðvitað bara réttarvernd varðandi Evrópska efnahagssvæðið. Þetta þýðir þó alla vega það sem dæmi að þýsk ferðaskrifstofa getur ekki neitað að selja mér einhverja ferð og sama á við um einhverja vöru. Ég gæti aftur á móti þurft að finna leiðir sjálf til að koma henni til landsins því að það er engin skylda á því. Mér finnst mjög mikilvægt að því sé til haga haldið og ég held að þetta sé mikil bót fyrir neytendur þannig að við höfum það alveg á hreinu.

Hv. þingmaður kom líka inn á annað og ef ég skil það rétt er hann líka að ræða hér almennt um netöryggismál. Kannski er ágætt að nefna það að við eigum sameiginlegan fund, utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, um netöryggismál í þessari viku vegna þess að það er gríðarlega mikilvægur þáttur og hann þurfum við að ræða. Hv. þingmaður lýsti því hvernig þessi hlutir geta flætt hér á milli og nefndi símtölin, við fögnuðum því mjög þegar lögin um að taka reikið með, (Forseti hringir.) sem gagnast Íslendingum mjög mikið, voru sett fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki örugglega gott mál og er þá ekki hitt einhver umræða sem við þurfum að fjalla um sérstaklega undir m.a. netöryggismálum?