151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér einkar áhugavert og bara frábært mál. Ég held að við megum ekki gleyma því, í allri þessari umræðu, hversu mikilvægt skref við erum að stíga með því að færa fæðingarorlofið upp í 12 mánuði. Það má aldrei gleymast. Það er auðvitað stóra skrefið. Við höfum gert það í áföngum. Börn sem fæðast á þessu ári fá tíu mánuði með foreldrum sínum og á næsta ári fer það upp í 12 mánuði. Svo getum við endalaust tekist á um hvort það eigi að vera enn þá lengra. Sum þeirra landa sem við berum okkur gjarnan saman við eru með lengra fæðingarorlof en við verðum líka að átta okkur á því að sum lönd eru bara með lítið sem ekkert fæðingarorlof. Þess vegna held ég að við getum öll hrópað svolítið húrra fyrir þessu máli. Þetta skiptir máli og er ofboðslega mikið hagsmunamál fyrir fjölskyldur. En þetta er líka gríðarlega stórt samfélagsmál og jafnréttismál. Ég heyrði einhvern hv. þingmann — nú er ég að velta fyrir mér hver það var, það var örugglega hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir — ræða um þetta sem jafnréttismál sem væri hluti af umræðu okkar um utanríkismál. Ég ætla að taka undir þann vinkil ef svo má að orði komast. Ég sit líka í hv. utanríkismálanefnd og hef alloft tekið á móti erlendum sendinefndum frá öðrum ríkjum. Á þeim fundum sem ég hef setið, þar sem hingað hafa komið erlendir þingmenn og viljað ræða við okkur, er tvennt sem einna helst hefur komið til umræðu, það eru norðurslóðamál og jafnréttismál. Þess vegna er mikilvægt að við gleymum ekki því stóra og mikla skrefi sem við stigum hér árið 2000 þegar ný fæðingarorlofslöggjöf var samþykkt þar sem báðir foreldrar fengu sjálfstæðan rétt til að taka fæðingarorlof. Það held ég að hafi verið eitt allra stærsta og mikilvægasta skrefið í jafnréttisbaráttunni. Í fullkomnum heimi myndi ég segja að fæðingarorlofið ætti bara tilheyra barninu og fjölskyldur ættu að ákveða hvað hentaði þeim best. En því miður, þrátt fyrir að við setjum hér heimsmet á hverju ári og séum í fyrsta sæti þegar kemur að jafnrétti kynjanna, er jafnrétti samt ekki náð.

Virðulegur forseti. Þess vegna held ég að þegar við ræðum þetta mál sé óumflýjanlegt að hafa í huga hversu öflugt og mikilvægt jafnréttistæki það er. Þetta snýst ekki bara um fæðingarorlofið sjálft, fyrstu mánuðina í ævi ungbarnsins sem eru jú gríðarlega mikilvægir og mikilvægt að báðir foreldrar hafi tækifæri til að njóta samvista með barninu og mikilvæg þau réttindi barnsins að njóta samvista við báða foreldra. Þetta nær nefnilega svo miklu dýpra. Þetta hefur áhrif á framgang kvenna á vinnumarkaði. Þetta hefur áhrif á launajafnrétti og þetta hefur líka áhrif á hlutverk kvenna á heimilinu til allrar framtíðar, hlutverk kvenna í þeirri ólaunuðu vinnu. Það er nefnilega þannig að feður sem fá tækifæri til að vera í samvistum við ungbarn sitt á fyrstu mánuðum ævi þess eru líklegri til að taka virkari þátt í uppeldi og umönnun barnanna það sem eftir lifir. Þess vegna eru það auðvitað ofboðslega margir þættir sem við þurfum að hafa í huga þegar við fjöllum um þetta mikilvæga mál.

Á sama tíma skil ég algerlega sjónarmið þeirra sem segja að fjölskyldurnar eigi sjálfar að fá að ráðstafa þessu eins og þeim henti best. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom svolítið inn á fæðingartíðnina og mikilvægi þess að við bjóðum fjölskyldum upp á gott umhverfi og hvetjum í raun til barneigna. Það er talið að fæðingartíðni þurfi að vera yfir tvö börn á móður en hún er í dag í kringum 1,7. Það lítur út fyrir að árið 2050 verði helmingi færri vinnandi hendur á hvern ellilífeyrisþega. Árið 2012 voru 5,6 á vinnufærum aldri á hvern 67 ára og eldri. Árið 2061 lítur út fyrir að það verði 2,4. Það er auðvitað jafna sem gengur ekki upp. Ein leið sem farin hefur verið er sú að við höfum boðið útlendinga velkomna hingað til að vinna. En stærsta málið er auðvitað að við þurfum að tryggja viðunandi fæðingartíðni. Ég ætla ekki að mæla fyrir einhverjum pólskum leiðum og borga konum fyrir að eignast fleiri börn og vera heima og sinna búi heldur er þetta samfélagslegt mál, að við ýtum undir það að ungt fólk vilji stofna fjölskyldu og hafi tækifæri til að sinna henni á sama tíma og þetta unga fólk hefur tækifæri til að sinna framgangi sínum á vinnumarkaði og öðru því sem lífið hefur upp á að bjóða. Ungt fólk gerir bara hreinlega kröfu um það í dag.

Ég hef sjálf verið tvístígandi varðandi hver sé nákvæmlega besta nálgunin þegar kemur að þessari ágætu skiptingu. Ég hef aðhyllst að við eigum að hafa þetta sem jafnast, þó með einhverjum sveigjanleika. Fyrstu hugmyndirnar voru um svokallað fimm, fimm, tveir. Ég hef reyndar gagnrýnt aðra þingmenn þegar þannig hefur verið talað, þetta er svolítið eins og að tala um einhvers konar uppröðun í boltaleikjum, fimm, fimm, tveir eða fjórir, fjórir, fjórir eða eitthvað sem ég skil ekki alveg. Þá er verið að tala um skiptingu milli foreldra og hvað sé í þessum sameiginlega potti. Mér finnst eitt mjög gott í nálguninni í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, þ.e. að hafa réttindi beggja foreldra jöfn en segja þó að einum mánuði, eins og í þessu tilfelli, megi skipta á milli. Þurfi einhvern veginn að ganga lengra í að sætta sjónarmið myndi ég segja að við ættum samt að hafa þetta grunnviðmið og segja: Ókei, mögulega kannski tveir mánuðir. Þá er ég að tala um að þetta séu réttindi einstaklinganna og að þeir geti komið sér saman um að ráðstafa þeim öðruvísi. Umræðan um þennan sameiginlega pott hefur líka orðið þess valdandi að karlmenn eru litnir hornauga á vinnustað ætli þeir að fara fram úr sjálfstæðum rétti sínum. Það er í alvöru vandamál. Á sama tíma eru konur litnar hornauga ætli þær ekki að fullnýta réttindi sín sem í þessu tilfelli eru réttindi þeirra og sameiginlegi potturinn. Menningin hefur svolítið verið þannig. Ég fagna því mjög ef við getum færst úr því og talað um sjálfstæð réttindi foreldra þótt ástæða kunni að vera til að eitthvað sé færanlegt milli foreldranna eftir aðstæðum þeirra hverju sinni.

Virðulegur forseti. Ég hef haft áhuga á þessu máli í töluverðan tíma, þ.e. lengingu fæðingarorlofsins og mikilvægi þess fyrir ungar fjölskyldur, líka út frá jafnréttismálum. Ég verð að viðurkenna að ég hafði samt ekki velt því ofboðslega mikið fyrir mér fyrir meira en ári, í desembermánuði, þegar við ræddum það hér við framlengingu á fæðingarorlofi fyrir árið 2020. Síðan þá hef ég gert það töluvert. Ég hef líka haft gaman af því að brydda upp á þessu umræðuefni víða í hópum. Ég ætla að fá að deila því hér, virðulegur forseti, að ég hafði samband við góða ættingja mína, frændsystkinahópinn eins og hann er kallaður sem eru frændsystkini mín, öll mér yngri, ég er langelst. Þau eru sem sagt á þessum fræga barneignaaldri. Það var áberandi hvað þær ágætu konur höfðu sterkar skoðanir á því að fjölskyldan ætti að hafa valið um það hvernig orlofinu ætti að vera skipt. En svo steig til að mynda fram 27 ára barnlaus bróðir minn sem sagði: Nei, þetta eiga auðvitað að vera réttindi foreldranna. Honum fannst alveg jafn mikilvægt að hann hefði sömu réttindi til að taka fæðingarorlof og barnsmóðir hans. Hann er mikið að stúdera stjórnun, hefur verið í stjórnendanámi, og það er skoðun hans að þetta sé örugglega risastórt jafnréttistól.

Nú ætla ég ekki að segja að ég viti hver hinn hárrétti sannleikur sé varðandi það hversu miklu foreldrar ættu að geta skipt á milli sín. Ég held þó að við þurfum að muna í allri þessari umræðu að við erum svo sannarlega á réttri leið. Við eigum að muna hversu gott og mikilvægt málið er þó að við kunnum að takast á um einhvers konar leikstjórnarskiptingu; fjórir, fjórir, fjórir eða fimm, fimm, tveir eða sex, sex og einn á milli eða sex, sex og tveir á milli. Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, aðhyllist ég það að við horfum á réttindi foreldra og veltum fyrir okkur hverju þeir mega mögulega skipta á milli sín en við reynum að draga okkur út úr umræðunni um svokallaðan sameiginlegan pott. Miðað við það sem ég hef kynnt mér er reynslan sú að konan tekur þann hluta orlofsins. Það er ekki bara að hún taki þann hluta og vilji það heldur er samfélagslega ætlast til þess af henni. Reynslan, bæði hér og á Norðurlöndum, sýnir okkur að feður taka sjaldnar af þessum svokallaða sameiginlega potti.

Ég fagna þessu máli mjög. Þetta er gríðarlega mikilvægt og gott mál og ég óska hv. velferðarnefnd velfarnaðar í því að fara yfir það og ná góðri lendingu og nálgun sem við getum sem flest sætt okkur við. Svo vil ég líka taka það fram að ég held að það sé mjög mikilvægt að við tryggjum einmitt réttindi einstæðra foreldra eða foreldra sem af einhverjum ástæðum geta ekki sinnt barni sínu svo að það bitni þá ekki að fullu á barninu.