151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er kannski spurning um hvaðan við horfum á hlutina, til hvers hvatarnir eru. Ef við erum að hugsa um hvata til þess að fá karla til að vera duglegri við að nýta fæðingarorlofsrétt sinn, er það endilega best gert með því að segja að þessir sex mánuðir verði ekki að fæðingarorlofi nema faðirinn taki þá og ef faðirinn tekur þá ekki þá bara tapi barnið á því? Það er það sem ég er að meina með boðum og bönnum.

Hv. þingmaður segir að enginn sé skikkaður til að fara í fæðingarorlof. Foreldri sem fætt hefur barn, eins og það er orðað í 8. gr. frumvarpsins, skal vera í fæðingarorlofi a.m.k. fyrsta hálfa mánuðinn eftir fæðingu barns. Það segir okkur kannski ákveðna sögu um að hlutunum er ekki alveg jafnt skipt þegar kemur að barneignum. Ég er ekki viss um að það að hafa þetta svona hnífjafnt feli í sér raunverulegt jafnræði. Síðasti mánuður á meðgöngu er mörgum konum mjög erfiður. Á öllum Norðurlöndum er það hluti af sjálfstæðum rétti konunnar að vera í leyfi frá 36. viku, bæði fyrir barnið og hana sjálfa. Síðan tekur það tíma sinn að jafna sig eftir barnsburð en þetta skal allt tekið af sjálfstæðum rétti konunnar. Þessir sex mánuðir skulu teknir af sjálfstæðum rétti konunnar. Auðvitað eru til alls konar undanþágur, t.d. ef konur verða alvarlega veikar, ef þær fá vottorð eða vinna á hættulegum vinnustað. En ég vil taka fram að ég er að tala um venjulegar fæðandi konur sem (Forseti hringir.) allar eiga erfitt með síðasta mánuðinn og bara venjuleg streita á síðasta mánuði getur valdið fyrirburafæðingu. (Forseti hringir.) Er það virkilega jafnræði að það sé nákvæmlega hnífjafnt (Forseti hringir.) þegar hlutverkunum er svona skipt?