152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við afar mikilvægt mál, sem skiptir landið allt, þjóðina alla og efnahaginn allan miklu máli, sem eru orkumálin og línulagnir og annað. Það er greinilega mikil orka í þessu máli. Það er aldrei að vita nema þessi löggjöf endi í tvenns konar lögum, bæði músíkölskum lögum og frá löggjafanum. Það er aldrei að vita. Sú umræða sem farið hefur fram undanfarið um hvort það sé orkuskortur, hvort virkja eigi meira og allt það, er einmitt nátengd dreifikerfinu. Staðan er sú að á Suðurnesjum eru bara jarðvarmavirkjanir sem þurfa stöðurafmagn með sér, eins og vatnsaflsvirkjanir og annað. Um leið þarf hið stóra kerfi líka á orkunni frá Suðurnesjum inn á höfuðborgarsvæðið að halda. Þannig að þegar við ræðum orkumál þurfum við að ræða þau út frá heildinni. Vatnsaflið, dreifikerfið, vindurinn og jarðhitinn, það vinnur allt saman. Ef það væri allt saman í lagi þá værum við með margfalt meiri orkugetu í kerfinu í dag en við höfum. Þá myndum við nýta auðlindirnar okkar miklu betur. Það myndi draga úr þörfinni fyrir frekari orkuöflun og draga úr orkutapi og orkusóun og öllu þessu, fyrir utan öll tækifærin sem það byði upp á. Við þurfum að hafa það svolítið í huga þegar við ræðum þetta.

Í þessu máli verðum við líka að hafa í huga, af því að ég er búinn að heyra það í umræðunni í dag, þrjú atriði sem mig langar að koma inn á. Fyrst er það að það sé einhverjum að kenna að þetta sé búið að taka 17 ár og hver fortíðin sé. Ég held að við þurfum aðeins að spara okkur það. Við skulum bara athuga hvert málið er komið í dag. Í dag er málið búið að fá leyfi Orkustofnunar. Á grundvelli leyfis sem Landsnet fékk hjá Orkustofnun til að leggja línuna á ákveðinn hátt var gert aðalskipulag og svæðisskipulag fyrir Suðurnesin og sveitarfélögin þar. Þar er gert ráð fyrir línunni eins og Landsnet leggur til. Það er búið að gefa út framkvæmdaleyfi einu sinni. Eignarnámið féll svo af því að það var ekki valkostagreining. Nú hefur valkostagreiningin farið fram, það er búið að fara í endurmat á þessu öllu saman og fara í gegnum allt ferlið. Það er staðan. Við þurfum að ræða málið út frá þeirri stöðu, ekki hvað hefði betur mátt fara í fortíðinni, þó að alltaf sé gott að læra af henni, ekki þegar við þurfum að klára þetta mál.

Svo skulum við fara yfir í það næsta, að það sé bara ekkert mál þó að hluti fari í jörð, bara eins og jarðstrengur sé ekkert mál. Það er einhver ástæða fyrir því að þetta er búið að fara í gegnum allan þennan feril og taka þennan langa tíma og að Landsnet haldi svona á málinu þrátt fyrir þessa andstöðu. Ef við ætluðum að fara að breyta yfir í jarðstreng í hluta af leiðinni þá gætum við þurft að biðja aftur um leyfi Orkustofnunar. Þá þyrfti að breyta skipulagsferlum. Þá gætum við þurft að opna fullt af kæruleiðum upp á nýtt. Að vísu hefur farið af stað öld jarðhræringa á sama tíma þannig að öryggi línunnar er miklu minna. Að setja línuna í jörð gæti hækkað raforkukostnað á landsvísu, dreifikostnað raforku, um 2%. Það er bara töluverð hækkun þegar við erum að tala um iðnað og önnur atvinnutækifæri. Með því að setja þetta í jörð, af því að ég var að tala um að taka upp skipulagsferlið og allt það, þá kæmu aðrar stofnanir ríkisins að ferlinu, eins og mat á umhverfisáhrifum og allt það, við myndum þá raska þarna hraunmyndunum og fleiru í náttúruverndinni. Það er meira jarðrask að setja þetta í jörð en loftlínu. Loftlína er miklu frekar afturkræf. Það er bara stórmál að fara að skipta um hest í miðri á, það hefur margvísleg áhrif. Ef hraun rennur yfir jarðstreng þá bráðnar hann bara og erfitt er að gera við hann, eins og gerðist í skógareldum í Ástralíu og víðar. Nýja byggðalínan, Kröflulína, stóðst Kröfluelda. Við þurfum að hafa það í huga.

Svo þurfum við líka að hafa í huga það sem sagt hefur verið hér í dag og það er að virða skipulagsvald sveitarfélaga, sem ég tek alveg heils hugar undir. Við verðum að gera það. Við verðum að virða eignarréttinn og skipulagsvaldið. Hvernig virðum við skipulagsvald og ábyrgð sveitarfélaganna þegar þrjú sveitarfélög eru í gíslingu eins? Hvaða skipulagsvald hafa Grindavík, Reykjanesbær og Hafnarfjörður í þessu máli? Ég spyr bara. Hvernig er með veiðifélög og marga afréttarsamninga og vatnasamninga og annað slíkt? Þá verður sá sem er fyrir ofan að taka tillit til þess sem er fyrir neðan. Það er umræðan í skipulagsvaldinu sem við erum að taka hér. Það er nú ekki flóknara en svo. Við erum bara að nýta okkur það hjól sem hefur verið fundið upp úti um allan heim, um aldir, að nágranninn þarf að taka tillit til hins nágrannans. Það sem gerist á einum stað hefur áhrif á öðrum. Maður mengar ekkert ána efst því að þá er maður búinn að skemma ána fyrir öllum hinum.

Ég vildi bara koma hingað upp og benda á að það er búið að fara í gríðarlega vinnu. Hún hefur verið til einhvers, hún hefur leitt til skynsamlegustu og bestu niðurstöðunnar. Hún er vissulega ekki þannig að allir séu sáttir. Það er oftast erfitt að gera svona mál þannig úr garði. Miðað við hagkvæmnissjónarmið, orkusjónarmið, tæknileg sjónarmið, byggðaleg sjónarmið, tímaleg sjónarmið og sérstaklega öryggissjónarmið eru þrjú sveitarfélög búin að samþykkja leiðina sem Landsnet leggur til núna. Úrskurðarnefndin er búin að fjalla um hana. Málið liggur nokkuð ljóst fyrir. Því tel ég ódýrt að segja að það sé ekkert mál að setja hluta í jörð, það er bara miklu meira mál en svo, og að verið sé að ganga á skipulagsvald sveitarfélaga þegar þrjú sveitarfélög eru í gíslingu. Við skulum hafa allar þessar staðreyndir á hreinu.

Ég þakka öllum sem komið hafa að þessu máli og hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni flutningsmanni fyrir að vekja athygli á þessu og koma að þessari umræðu. Þetta er bara eins og með allt annað, það þarf að lyfta umræðunni og það þarf að upplýsa fólk til að komast áfram með málið. Þetta er búið að fara gegnum skipulagsferli, leyfi Orkustofnunar, umhverfismat og ferla hjá Landsneti og annað. Það er ekki að ástæðulausu að þetta er lausnin sem er á borðinu. Með því að segja að betra sé að fara aðra leið erum við að gera lítið úr öllum þessum stóru ferlum og skipulagsvaldi annarra sveitarfélaga.

Ég hlakka til að fá málið til umfjöllunar í þinginu. Ég vil enda á að segja að vonandi þurfum við ekki að ljúka málinu hér heldur verði málið leyst áður en við náum að afgreiða það frá þinginu. Það er mín ósk. Að öðrum kosti vona ég að okkur takist vel að vinna málið og náum að klára það ef þörf er á.