153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

skuldbindingar ríkisins vegna ÍL-sjóðs.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi segir hv. þingmaður að afstaða mín sé ekki skýr. Jú, hún er algerlega skýr. (Gripið fram í.) Það á að segja frá þessu máli skýrt og greinilega, eins og gert hefur verið, það á ekki að fela það undir einhverjum stól, (Gripið fram í.) það kemur ekki til greina, af því að þetta eru almannahagsmunir sem hér eru undir. Hv. þingmaður er nú í flokki sem kennir sig við almannahagsmuni. Þá skulum við ræða um hagsmuni komandi kynslóða sem munu bera þennan reikning ef ekkert er að gert.

Þá segi ég: Eðlilegt fyrsta skref er að eiga þetta samtal við eigendur skuldabréfanna. Það er mín skýra afstaða. Ég tel, eins og kom fram í fyrra svari, að hagsmunir skattgreiðenda og lífeyrisþega geti farið saman, því að við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir hafa ákveðin tækifæri til þess þá að ávaxta sitt fé með öðrum hætti. Innbyrðis aðstæður þeirra eru mjög ólíkar, eins og fram kom í fyrra svari líka, vegna þess að þær eru færðar með ólíkum hætti.

Ég ætla að segja það líka hér að ég held að það skipti máli, og þess vegna var þetta mál lagt fram sem skýrsla, að við getum einmitt átt þetta samtal um það hvaða leiðir eru skýrar. Ég kalla þá eftir því hvaða leið flokkur hv. þingmanns vill fara í þessum málum. (Forseti hringir.) Vill hún ekki hefja þetta á því (Gripið fram í.) að fara í samtal við kröfuhafana, sem er það sem við erum að gera og er okkar skýra afstaða? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)