153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

framlög til heilbrigðiskerfisins.

[11:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Læknafélag Íslands hélt aðalfund sinn 14. október sl., þar sem félagið ákallar ríkisstjórn Íslands vegna ríkjandi neyðarástands í heilbrigðiskerfinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðaleysi stjórnvalda, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir, stefnir heilsu þjóðarinnar í hættu. Núverandi ástand er óboðlegt og hættulegt. LÍ krefst þess að tafarlaust verði ráðist í aðgerðir á margumræddum vanda, til þess að tryggja bestu mögulegu heilsu og öryggi sjúklinga, persónuvernd þeirra og mannlega reisn.“

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður en viðvarandi og áframhaldandi læknaskortur kemur í veg fyrir þá fyrsta stigs þjónustu sem á að fara fram á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld svara ekki ítrekuðu kalli um að fjármagna sérnámslækna þannig að við sjáum ekki breytingu á þessu í náinni framtíð. Í minnisblaði frá Sjúkrahúsinu á Akureyri segir að stjórnendur sjúkrahússins hafi bent á að 500 milljónir vanti í rekstrargrunninn, fyrir utan viðhald á húsnæði, til að það geti haldið áfram að veita sömu þjónustu. Stjórnendur segja að það hljóti að koma að því, ef ekki verður brugðist við, að skera þurfi niður í klínískri þjónustu nema ákvörðun verði tekin um að hætta með einhverja þjónustueiningu og spyrja: Hvaða þjónustueiningu á að leggja niður, sem þá færir fleiri verkefni á Landspítala sem getur ekki tekið við frekari verkefnum?

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra, sem leiðtoga ríkisstjórnar sem boðaði endurreisn innviða við upphaf stjórnarsetu sinnar: Er hún stolt af verkum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að tryggja að sjúklingar fái hér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu? Telur hún að ríkisstjórnin þurfi e.t.v. að hlusta á sérfræðinga sem árum saman hafa sent neyðarkall til (Forseti hringir.) stjórnvalda um að heilbrigðiskerfið sé (Forseti hringir.) að niðurlotum komið? Það ríkir neyðarástand en því miður sjást þess hvergi merki í fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórnin sé að hlusta.