Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:52]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ísland á að standa heils hugar á bak við efnahagsþvinganir Vesturlanda gegn kúgun klerkastjórnarinnar í Íran. Íranir eru mikil menningarþjóð, arftakar Persa, og kúgun klerkastjórnarinnar í Íran er ein sú mesta í heiminum ef undanskilin er Norður-Kórea. Þeir hafa verið kallaðir hluti af öxulríkjum hins illa. Ísland á að nota rödd sína sem smáþjóð innan Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og á alþjóðavettvangi til að benda á hina miklu kúgun persnesku þjóðarinnar, Írönum.

Varðandi þær efnahagsþvinganir sem málshefjandi vísar til er það vissulega rétt að þær koma frá Evrópusambandinu, en þær efnahagsþvinganir sem eru í gildi á Vesturlöndum eru undir forystu Bandaríkjamanna. Ég var að vinna í norrænum banka á þessu sviði, efnahagsþvingunum, og það er varla til sú fjármálastofnun í heiminum sem ekki fylgir bandarísku efnahagsþvingununum. Við eigum að sjálfsögðu líka að fylgja þvingunum Sameinuðu þjóðanna og ESB. Þetta eru raunar víðtækustu efnahagsþvinganir í sögunni og sem til eru í heiminum. Ég vil nota tækifærið og vísa til skýrslu sem kemur frá Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og er fréttatilkynning frá 19. maí sl. Þær eru orðnar alvarleg ógn við mannréttindi og virðingu fólks í Íran, þannig að þær eru svo sannarlega að virka.

Þessi uppreisn í Íran á upphaf sitt meðal kvenna og ég tel að það sé mjög mikilvægt að Vesturlönd og stjórnmálaleiðtogar í heiminum og á Íslandi og ekki síst kvenleiðtogar styðji við bakið á kynsystrum sínum í þeirri baráttu sem þar fer fram. Ég efast ekki um að hæstv. utanríkisráðherra muni ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu. Hérna er um grundvallarmál að ræða og (Forseti hringir.) ríki sem ógnar heimsfriðinum hvað mest í heiminum í dag.