Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka heils hugar fyrir þessa umræðu því að hún er svo sannarlega mikilvæg, ekki bara fyrir almenning og þá sérstaklega konur í Íran heldur alla heimsbyggðina. Ég vil fara fáeinum orðum um það hvernig þetta birtist mér og ég vil spyrja einnar spurningar til hugleiðingar fyrir okkur öll: Myndum við öll hér í þessum sal og í okkar samfélagi hafa kjarkinn til að mótmæla eins og ungu konurnar í Íran ef brotið væri svo freklega gegn okkar réttindum eins og gert er þar í landi? Myndum við öll flykkjast út og mótmæla með þá vitneskju í kollinum að það er lífshættulegt, að við gætum fengið byssukúlu í höfuðið og vitandi að stjórnvöld vilja helst, og hafa gert, myrða þá sem hafa hæst?

Ég vona svo sannarlega að svarið hjá okkur öllum yrði já, en ég spyr þessarar spurningar vegna þess að ég dáist að hugrekki þeirra sem fórna lífinu í baráttu fyrir mannréttindum sem okkur öllum á Íslandi þykir sjálfsögð. Dagsdaglega þurfum við ekki svo mikið að leiða hugann að þessum grundvallarmannréttindum en annars staðar leggur fólk sig raunverulega í mikla lífshættu í baráttu fyrir því sem við göngum oft að sem gefnu. Mótmælendur í landinu, ekki síst ungu konurnar sem hafa hæst, eiga svo sannarlega skilið allan okkar stuðning. Þetta minnir okkur auðvitað líka á að við eigum að hafa hátt og gera allt sem við getum sem lýðræðisþjóð þegar svona mannréttindabrot eiga sér stað. Við eigum ekki að vera feimin við að gagnrýna þegar réttindi kvenna eru fótum troðin og því pakkað inn í túlkun á boðskap trúarbragða. Dæmin sanna að slíkt getur kallað fram hörð viðbrögð en við eigum ekki að hræðast þá umræðu, fólk á rétt á grundvallarmannréttindum hvað sem líður túlkun einhverra „ayatollah“ á því hvað konum er fyrir bestu.

Mig langar í lokin að vitna til þess sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sagði hér á dögunum í umræðu um sama mál í störfum þingsins, með leyfi forseta:

Kannski ætti ung, hugrökk írönsk stúlka, ein byltingarleiðtoganna í Íran, að vera næst til að ávarpa Alþingi hér í þessum sal, setja okkur inn í málið, setja fram óskir um aðstoð, mála tvær framtíðarsýnir, eina þar sem byltingin (Forseti hringir.) þeirra er brotin niður og aðra þar sem frelsið sigrar, þar sem baráttan fyrir okkar gildum sigrar.