Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:13]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því eins og önnur hér að þakka hv. frummælanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu sem skiptir heilmiklu máli. Kona, líf og frelsi eru orð sem fanga. Þau fanga ástand, fanga sýn til framtíðar og fanga von. Nú er 41 dagur síðan mótmælin í Íran hófust, mótmæli sem leidd hafa verið miklu hugrekki og þrautseigju, mikið til af ungu fólki þar í landi, ungu fólki sem krefst tafarlausra breytinga og aukinna mannréttinda. Samkvæmt upplýsingum Human Rights Activists News Agency, með leyfi forseta, sem er fréttastofa mannréttindasinna þar í landi, er áætlað að a.m.k. 222 hafi verið drepin í þessum víðtæku mótmælum sem hófust vegna dauða Masha Amini. Það er mjög erfitt að sannreyna fjöldann, hvað þá nöfnin. Fólk sem berst fyrir sjálfsögðum mannréttindum geldur með lífi sínu. Internetið í Íran er ritskoðað, það hægist reglulega á því, það er jafnvel stöðvað og blaðamenn eiga yfir höfði sér ákæru fyrir að segja fréttir. Að sögn Alþjóða blaðamannasambandsins hafa 24 fréttamenn verið handteknir í Íran síðan mótmælin hófust. Þau myndbönd og hljóðupptökur sem við höfum séð eru hræðilegur vitnisburður um það sem gengur á í landinu. Það er erfitt fyrir okkur hér lengst norður í hafi að ímynda okkur hvernig það er að búa við slíkt óöryggi. Við skiljum raunar ekki þessar aðstæður en þeim mun ríkari er sú krafa að við leggjum okkur öll fram um að skilja þær, reynum að setja okkur í spor þessa fólks. Leggjum okkar af mörkum til þess að knýja fram breytingar því að við skiljum alltént að ofríki og kúgun eins og hún birtist í stöðunni í Íran er óásættanleg.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa hrósað framgöngu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli og veit að hún heldur ótrauð áfram.