Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil hér í seinni ræðu ítreka það, eins og við höfum áður sýnt fram á hér á landi, að þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð þá getum við talað hátt og við eigum að tala hátt og við eigum að tala skýrt og við eigum að beita rödd okkar á alþjóðavettvangi. Ég er ánægð með það hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur talað í þessu mál því að við erum þjóð sem kennir sig við mannréttindi og jafnrétti. Hér eigum við að standa með almenningi í Íran, við eigum að standa með konum í Íran, við eigum að standa með Kúrdum. Þær þvingunaraðgerðir sem gripið hefur verið til skipta máli en það skiptir máli að þrýstingurinn haldist og það skiptir máli að þrýstingurinn aukist. Ég myndi í því sambandi vilja minna á það hvernig stjórnvöld í Kanada hafa haldið á málum. Ég bendi á aðgerðir stjórnvalda þar í landi.

Ég vildi að síðustu aðeins tala um það í breiðara samhengi hvaða ríki við erum hér að tala um, hvernig stjórnvöld þar í landi vinna, að þau eru ógn við eigin borgara og þau eru ógn við aðra. Það er rétt að setja það í samhengi við stöðu heimsmála núna því að allt skiptir þetta máli og allt helst þetta í hendur. Hvaðan koma t.d. drónarnir?

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda því áfram að tala máli mannréttinda og fyrir bættri stöðu fólksins, almennings, kvenna, Kúrda, í Íran hvar sem hún er á alþjóðavettvangi. Auðvitað skiptir máli þar að við eigum utanríkisráðherra sem er ung kona. Það hjálpar til. Ég ætla að bara einfaldlega að fá að leyfa mér að enda á þessum orðum: Kona, líf, frelsi. Um það snýst málið og fyrir því eigum við öll hér inni að tala.