Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

37. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Á tímum neyðarástands í loftslagsmálum verða stjórnvöld að axla þá ábyrgð sem fylgir valdasetu. Á tímum þegar neyðarástand ríkir víða um heim vegna loftslagsbreytinga og óafturkræfs skaða á umhverfi og loftslag verður almenningur að hafa skýra möguleika til aðhalds og eftirlits með stjórnvöldum. Til að vernda hagsmuni komandi kynslóða verðum við að gefa almenningi og þeim sem láta sig málefni umhverfisins varða verkfærin sem þau þurfa til að veita stjórnvöldum og framkvæmdaraðilum aðhald. Það er megintilgangur þessa frumvarps.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála. Með frumvarpinu er umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem eiga aðild að kærumálum fyrir nefndinni, gert kleift að skjóta úrskurðum hennar til dómstóla óháð því hvort þau eigi svokallaðra lögvarðra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Þetta mál hefur verið flutt nokkrum sinnum en ekki hlotið framgang. Málið var unnið í góðu samstarfi og fyrir tilstuðlan Landverndar.

Tilgangur frumvarpsins er að gera félögum á borð við Landvernd og öðrum sem láta málefni umhverfisins sig varða kleift að kæra úrskurði kærunefndar um umhverfis- og auðlindamál til dómstóla. Staðan er sú í dag að slík samtök geta ekki kært niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar til dómstóla eins og eðlilegt væri þegar kemur að stjórnvaldsákvörðunum. Þetta frumvarp myndi bæta úr því með því að fella á brott úr lögum lista af undanþágum svo að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök hafi kæruheimild og þeim sé veitt heimild til að kæra alla úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Til að taka af allan vafa um kæruheimild samtakanna bætist ný málsgrein við 4. gr. laganna um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem þeim er veitt kæruheimild óháð því hvort þau eigi lögvarðra hagsmuna að gæta samkvæmt einkamálaréttarfari.

Forseti. Það er brýn nauðsyn að breyta núverandi lagaumhverfi þar sem umhverfissamtök þurfa að sýna fram á að uppfyllt séu hefðbundin réttarfarsleg skilyrði til aðildar að viðkomandi máli. Dæmi um þetta má finna í dómi Hæstaréttar frá 2. ágúst 2017 í máli nr. 432/2017 þar sem umhverfissamtökin Landvernd kröfðust þess að ógilt yrði með dómi framkvæmdaleyfi Landsnets hf. vegna lagningar Kröflulínu 4. En vegna þeirra almennu réttarfarsreglna um að þeir einir geti átt aðild að málum fyrir dómstólum sem hafa einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta var málinu vísað frá þar sem Landvernd taldist ekki vera aðili málsins. Sambærileg niðurstaða var í dómi Hæstaréttar nr. 677/2013 þar sem beiðni þriggja náttúruverndarsamtaka um ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum var hafnað og úrskurði Landsréttar 418/2018 þar sem tvenn náttúruverndarsamtök kröfðust ógildingar á framkvæmdaleyfi um hringveg um Hornafjörð, en málinu var vísað frá á grundvelli þessarar almennu meginreglu réttarfars um aðild.

Virðulegur forseti. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á laggirnar í kjölfar innleiðingar Árósasamningsins svokallaða í íslenska löggjöf. Meginstoðir samningsins eru þrjár. Fyrsta stoðin leggur samningsaðilum, þ.e. stjórnvöldum viðkomandi ríkja, skyldur á herðar varðandi aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar aðildarríki til að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku sem lýtur að einstökum framkvæmdum sem hafa áhrif á umhverfi. Og með þriðju stoðinni styður samningurinn framangreind réttindi með ákvæðunum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðlar að auknu vægi samningsins.

Það frumvarp sem við ræðum hér bætir til muna þriðju stoð Árósasamningsins og eykur þar af leiðandi vægi hans í íslensku réttarfari. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að þetta er mjög mikilvæg réttarbót, líka fyrir almenning í landinu, að geta haft aukna aðkomu að framkvæmdum, aukna aðkomu að ákvörðunum sem teknar eru um nærumhverfi eða um landið allt. En auðvitað er þessi beiting mikilvægust fyrir umhverfið, sem er jörðin sem mállaus og getur því ekki varið sig án stuðnings samtaka almennings sem láta sig velferð jarðarinnar okkar varða.

Verði þetta frumvarp að lögum myndi náttúruverndarsamtökum vera gefin rýmri aðild að dómsmálum en nú er. Náttúran er hvorki einstaklingur né lögaðili og því mikilvægt að unnt sé að gæta hagsmuna hennar fyrir dómstólum á tímum neyðarástands í loftslagsmálum.