Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

131. mál
[17:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir hennar framsögu. Ég get tekið undir margt eða flest sem hv. þingmaður og 1. flutningsmaður þessarar ágætu tillögu sagði hér. Ég átta mig á því hvað flutningsmenn eru að reyna að gera og ég styð markmiðið sem hér er sett. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort flutningsmenn hafi ekki velt því fyrir sér hvort það þyrfti ekki — og þá væri það hlutverk nefndar þegar málið gengur til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ef ég fer rétt með, það gæti verið önnur nefnd en látum það liggja á milli hluta — hvort þessi tillaga sé ekki fullþröng. Í fyrsta lagi hefði ég haldið að það ætti að víkka þetta út og ekki síst beina augum að, eins og hv. þingmaður kom að í framsöguræðu sinni, hinni virku samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustu. Þar erum við algerlega samstiga. Hvort það eigi ekki að láta fylgja — það gæti verið einn af áföngum í þessari úttekt sem ég held að sé nauðsynlegt að gera, að horfa sérstaklega til þess hvernig ríkið, eða réttara sagt hið opinbera, vegna þess að það er ekki alltaf ríkið, það geta líka verið sveitarfélögin, hagar sér á samkeppnismarkaði og hvort lög og reglugerðir sem eru í gildi séu með þeim hætti að það auðveldi opinberum aðilum en geri þeim ekki torvelt fyrir, eins og ég held að það ætti að gera, að stunda samkeppni við einkaaðila. Og hvort það væri þá ekki skynsamlegt að reyna að formgera það í vinnu þeirrar nefndar sem fær þessa tillögu. Það væri forvitnilegt áður en við afgreiðum þetta mál, áður en það verður útrætt hér í þessum sal og áður en það gengur til nefndar, að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa.