154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í Kastljóssviðtali fyrir að því er virðist fyrir mörgum árum síðan en er ekkert fyrir svo löngu síðan sagði hæstv. þáverandi fjármálaráðherra um niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að hann hafi gerst brotlegur við stjórnsýslulög að hann hafi ekki verið að brjóta lögin með opin augun. Mig langar aðeins að ræða um þetta, virðulegi forseti, vegna þess að ráðherrar geta einmitt brotið lög með því að vera með lokuð augun þegar þau ættu með réttu að vera opin. Vanræksla getur með öðrum orðum verið lögbrot. Hæstv. ráðherra hélt því fram að úrskurður eða álit umboðsmanns hefði komið honum alveg skelfilega á óvart og hann væri í sjokki yfir þessari niðurstöðu vegna þess að öll sú ráðgjöf sem hann hefði fengið fyrir útboðið fræga á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi gefið til kynna í fyrsta lagi að Bankasýsla ríkisins væri sjálfstæð stofnun og í öðru lagi að ráðherrann þyrfti ekki að gæta að hæfi sínu við sölu á hlutunum á nokkurn hátt. Hann hefur reyndar komið með margar skýringar á því frá því að þessi sala fór fram hvers vegna hann átti ekki að gera það. En nýjasta skýringin er sem sagt þessi, að vegna þess að Bankasýslan er sjálfstæð stofnun þá þurfti ráðherra ekki að gæta að hæfi sínu þrátt fyrir að hann seldi formlega hlut í Íslandsbanka til m.a. föður síns.

Mér fannst áhugaverð öll þessi lagalega ráðgjöf sem hæstv. fjármálaráðherra á að hafa fengið fyrir söluna vegna þess að í áliti umboðsmanns segir að gögn málsins beri ekki með sér að þetta hafi verið íhugað á nokkurn hátt í undirbúningi málsins. Forsætisráðherra hefur síðan líka komið og sagt að öll lagaleg ráðgjöf hafi bent til þess, Bankasýslan væri sjálfstæð stofnun og að ráðherra hafi ekki borið ekki að gæta hæfi sínu.

Ég óskaði eftir því að fá afrit af þessari ráðgjöf sem ráðherrarnir tveir höfðu fengið. Nú hafa mér borist svör frá forsætisráðuneytinu þar sem ég sé enga (Forseti hringir.) greiningu á þessum efnisatriðum. En nú, þremur vikum síðar, hefur ekki enn borist svar frá fjármálaráðuneytinu sem nota bene hefur eina viku til að svara. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að sýna okkur þessa ráðgjöf sem hann á að hafa fengið.