154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Þingflokkur Viðreisnar leggur nú fram þingsályktunartillögu þar sem það er lagt í hendur Alþingis að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas og síðan árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum og á borgaralega innviði á Gaza-svæðinu. Í tillögunni er tekið skýrt fram að þótt Ísrael hafi rétt til þess að verja sig sé sá réttur ekki takmarkalaus. Það er kallað eftir tafarlausu mannúðarhléi svo að hægt sé að hlúa að fólki á svæðinu. Það er kallað eftir því að gíslar verði látnir lausir og að Alþingi beiti sér fyrir því að fundin verði lausn á þessum átökum svo að borgarar Ísraels og Palestínu megi búa við frið.

Þessi þingsályktunartillaga er efnislega samhljóða breytingartillögu Kanada sem lögð var fyrir á þingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum. Sú tillaga frá Kanada sameinaði alla okkar helstu bandamenn. Allar Norðurlandaþjóðirnar, allar þjóðir Evrópu og allir helstu bandamenn Íslendinga voru sammála þeirri tillögu á þingi Sameinuðu þjóðanna. Atkvæðagreiðslan um hina endanlegu tillögu á þeim vettvangi fór síðan eins og hún fór og það hefur auðvitað verið mjög dapurlegt að fylgjast með því hvernig utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið og hæstv. ráðherrar þar hafa verið að skiptast á fréttatilkynningum þar sem menn eru að leiðrétta hver annan um það hver hin raunverulega afstaða Íslands ætti að vera.

Þessi tillaga Viðreisnar sem núna liggur fyrir þinginu ætti að geta orðið til þess að allir þingmenn á Alþingi Íslendinga sameinist í því sem er rétt að gera og sem allar vinaþjóðir okkar stóðu saman að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er okkar von að þessi samstaða náist því að það skiptir mjög miklu máli í svona viðkvæmu og erfiðu og langvinnu átakamáli fyrir botni Miðjarðarhafs að þjóð eins og okkar tali einum rómi.