133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ærin ástæða til að taka það upp hvernig hæstv. ríkisstjórn vinnur að þessum málum, hvernig vinnubrögð eru í þingnefnd og hvað mönnum er ætlað að gera þar gagnvart afgreiðslu á stórum fjárhæðum, milljarðatugaábyrgðum eða -lánveitingum ríkisins án þess að hafa þar nokkur gögn til undirbyggingar eða samninga sem taka á ábyrgð á o.s.frv. Hvað má þá segja um okkur þingmenn sem sitjum ekki einu sinni í viðkomandi hv. nefnd? Okkur er auðvitað ætlað að ganga til umræðna um málin og afgreiðslu á þeim án þess að hafa nokkrar forsendur á bak við hlutina.

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar varðandi t.d. þessi orkumál eru alveg með endemum. Þarna eru stjórnarflokkarnir, helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, að versla við sjálfa sig í ríki og borg bak við tjöldin án þess að leggja nein gögn á borðið eða neina samninga fram. Er gengið frá þessu milli stjórnarflokkanna sem sitja báðum megin við borðið, eru bæði kaupandi og seljandi fyrir hönd almennings, annars vegar í borginni og hins vegar í landinu. Þetta eru vinnubrögðin. Hvorki hjá borginni og þaðan af síður á Alþingi hafa mönnum verið sýndir samningarnir sem á að fara að taka ábyrgð á.

Hér á að dúkka upp með korters fyrirvara viðbótarríkisábyrgð upp á 5 milljarða kr. — vegna hvers? Vegna umframkostnaðar í Kárahnjúkavirkjun. Hver eru gögnin sem fram hafa verið reidd um það? Ég hef ekki séð þau, ekki nefndarmenn í fjárlaganefnd heldur. Svona eru vinnubrögðin.

Ég veit ekki betur en að með eignarhlut sveitarfélaganna eigi að fara hlutur þeirra í Landsneti. Ætlar þá Alþingi ekkert að ræða það hvort ríkið á nánast eitt að eiga dreifingarkerfi raforku í landinu þannig að sveitarfélögin fari út úr því? (Gripið fram í.) Er það samkeppnin, hv. frammíkallandi? Er það samkeppnin sem Framsóknarflokkurinn ætlar að innleiða með orkutilskipun Evrópusambandsins?

Ég held að ærin ástæða sé til að ræða þetta áður en menn fara að taka ríkisábyrgðirnar (Forseti hringir.) og lánveitingaheimildirnar inn í fjárlög eða fjáraukalög. Tökum fyrst grundvallarumræðu (Forseti hringir.) um þessi mál.