135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:47]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að formið á þessu hafi verið með ýmsum hætti í gegnum tíðina. Mér fannst hins vegar hv. þm. Jón Bjarnason reyna að gera það á einhvern hátt tortryggilegt eða vekja athygli á því í ræðu sinni að ráðherra hefði brugðist við með því að óska eftir stjórnsýsluúttekt. Ég verð að segja að mér fundust það fullkomlega eðlileg og ábyrg viðbrögð af hálfu ráðherra þegar hann, óspart hvattur í þingsölum til að bregðast við tilteknu máli sem var Grímseyjarferjumálið, sem hv. þm. Jón Bjarnason og félagar hans í Vinstri grænum hafa verið duglegir við að nefna í sölum Alþingis, sagðist vilja láta gera stjórnsýsluúttekt á því máli. Mér finnst málflutningur hv. þingmanns vera farinn að bíta svolítið í skottið á sér því þegar brugðist er við með viðhlítandi hætti og kallað eftir stjórnsýsluúttekt er það allt í einu orðið ómögulegt vegna þess að það er ekki rétt málsmeðferð, það er ekki farið eftir réttum formsatriðum af því að ráðherrann nefnir það.

Ég vek athygli þingheims á því að hv. þm. Jón Bjarnason gat ekki, þegar ég kallaði eftir því í andsvari mínu, bent á neina stoð í lögum eða reglum um að ráðherra gæti ekki óskað eftir slíkri úttekt, enda er það þannig, eins og ég sagði áðan, að þingmenn, ráðherrar og forsætisnefnd geta gert þetta en munurinn er sá að óski forsætisnefnd eftir þessu við Ríkisendurskoðun hefur ríkisendurskoðandi ekkert val um að skorast undan slíkri skoðun.