136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

aukalán LÍN.

[10:41]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil í rauninni taka undir það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði áðan. Ég er alveg sammála henni í öllum meginatriðum. Þetta verður að vera túlkað þannig að námsmenn flosni ekki upp úr námi. Við viljum ekki að námsmenn flosni upp úr námi. Þetta er m.a. það viðmið sem starfsfólk lánasjóðsins mun setja sér og fara yfir hverja umsókn.

Hins vegar verður líka að gæta þess að ekki verði sjálfkrafa virkni í kerfinu til aukinna framlaga. Menn verða að sýna fram á á sanngjarnan hátt hver neyðin er. En á hinn bóginn er það mjög hættulegt fyrir samfélagið ef fólk flosnar úr námi, hvort sem það er á erlendri grund eða hér. Þess vegna fagna ég sérstaklega þeirri áherslu sem hv. þingmaður setur fram í máli sínu og við erum sammála um að við eigum að styrkja LÍN. Við eigum að efla þann félagslega þátt því LÍN er ekkert annað en félagslegur sjóður til að stuðla að því að fólk geti sinnt námi sínu með sóma.