139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:08]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Flutningsmenn ásamt mér eru Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, Pétur H. Blöndal, Árni Johnsen og Birgir Þórarinsson. Lagt er til í þingsályktunartillögunni að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram þann 27. nóvember nk.

Ágæti forseti. Í dag er 11. nóvember og kosningar til stjórnlagaþings fara fram eftir 16 daga. Því er ljóst að þau tímamörk sem tilgreind eru í þingsályktunartillögunni eru útrunnin. Ég lagði ríka áherslu á að málið kæmist á dagskrá hér fyrir þinghlé sem nú er nýafstaðið en sú tillaga fékk ekki brautargengi hjá forsætisnefnd og forseta Alþingis. Því mun ég í næstu viku leggja fram breytingartillögu um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ekki seinna en 28. maí 2011, að þetta tímamarkaákvæði verði lengt um sex mánuði.

Um leið og þingsályktunartillagan var lögð fram kom fram sú gagnrýni að það væri ekki æskilegt að blanda saman þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og kosningunni til stjórnlagaþings. Það má vel vera að sú gagnrýni hafi verið réttmæt en við flutningsmenn lögðum á það áherslu að þarna ætti að samnýta kosningadag og þar með spara ríkissjóði 250 millj. kr. Samkvæmt síðustu upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu kostaði eina þjóðaratkvæðagreiðslan sem nú þegar hefur farið fram, þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave, 250 millj. kr.

Það má alveg skoða það í framtíðinni, þar sem ekki er fyrirsjáanlegt að það verði kosningar á þessu sex mánaða tímabili sem við höfum þetta svigrúm til, hvort ekki mætti kjósa rafrænt. Það eru öll tæki og tól til staðar til að gera það og mundi það þá lækka kostnaðinn verulega ef það er kostnaðurinn sem stendur í fólki en minnt er á að íslenska ríkið ætlar að leggja a.m.k. 1 milljarð kr. til þessara aðlögunarviðræðna. Þegar upp er staðið er þessi kostnaður því kannski ekki svo mikill miðað við það sem þjóðin fær út úr þessari tillögu, að tjá hug sinn áður en lengra er haldið. Eins og fram hefur komið er hér um að ræða aðlögunarviðræður en ekki umsóknarferli þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra mótmælti því einu sinni enn hér í fyrirspurnatíma fyrr í dag, hann sagði að við ættum í viðræðum en ekki aðlögun. Þrátt fyrir það viðurkenndi hæstv. utanríkisráðherra að við tækjum í hverri einustu viku upp EES-reglugerðir og breyttum hér lögum í átt að því að uppfylla EES-samninginn. Því miður er það akkúrat þáttur í því að bæta hér lagaumhverfi og þáttur í þessum aðlögunarviðræðum.

Það var gagnrýnt hér að ekki væri fullbúin spurning í þingsályktunartillögunni. Þá vil ég vísa í það að í 3. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna segir að það skuli fá umsögn landskjörstjórnar og að landskjörstjórn skuli kveða á um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar sem lögð er fyrir kjósendur. Á kjörseðli skal skýrt koma fram hver spurningin er sem kjósandi skal segja já eða nei við. Þá er jafnframt bent á að það kemur tillaga um þetta þegar þingsályktunartillagan kemur hér til síðari umræðu.

Þá langar mig aðeins til að grípa hér niður í greinargerðina. Þessi tillaga til þingsályktunar gengur fyrst og fremst út á það að þjóðin fái að tjá hug sinn til þess aðlögunarferlis sem Ísland er í að Evrópusambandinu og að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið.

Hinn 16. júlí í fyrra ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Atkvæði féllu þannig að 33 þingmenn sögðu já, 28 sögðu nei og 2 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Það kom skýrt fram í atkvæðaskýringum sumra þingmanna sem samþykktu tillöguna að efasemdir og jafnvel bein andstaða væri við að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Því náðist hér í gegn í fyrra naumur og mjög ósannfærandi meiri hluti, enda lá fyrir þinginu þingskjal með eftirfarandi breytingartillögu á þingsályktunartillögunni frá því í fyrrasumar, með leyfi forseta:

„Í stað 1. málsl. efnisgreinarinnar komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Þarna var mikill vilji fyrir því hjá ákveðnum þingmönnum að fyrst skyldi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin vildi fara í þessa vegferð. Hefði þjóðin sagt já við þeirri tillögu átti að fara af stað með viðræðurnar. Þessi atkvæðagreiðsla fór svo að 30 þingmenn sögðu já, 32 sögðu nei og einn þingmaður greiddi ekki atkvæði. Það er því ljóst af þessu að hér á Alþingi er mjög tæpur meiri hluti fyrir þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er að fara með þjóðina í og er það, svo sem margoft hefur komið fram, að annar ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, er á móti því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í stefnuskrá þeirra kemur líka skýrt fram að þeir telji hagsmunum Íslands betur borgið fyrir utan Evrópusambandið.

Það er nokkuð undarlegt að standa í þessum sporum því að Evrópusambandið er vant því að þær ríkisstjórnir sem sækja um aðild að sambandinu séu samstiga í málinu og hafi þjóðina með sér, hafi þjóðarvilja að baki umsókninni. En svo er svo sannarlega ekki hvað varðar okkur Íslendinga.

Þessi umsókn er alfarið á ábyrgð Samfylkingarinnar, þetta tel ég vera gjaldið sem Vinstri grænir þurftu að greiða fyrir það að fá að sitja í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Það var lífsspursmál fyrir Samfylkinguna að fá þetta mál á dagskrá því að eins og flestir vita er aðeins eitt mál á dagskrá hennar, það að komast inn í Evrópuklúbbinn, að við Íslendingar förum inn í Evrópusambandið.

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að við Íslendingar stöndum þétt saman að þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Hér hefur ríkt kyrrstaða síðustu 24 mánuði og sú ríkisstjórn sem situr hefur ekki náð því (Gripið fram í.) að koma málum áfram, skapa hér atvinnutækifæri eða hjálpa heimilunum. Ríkisstjórnin virðist ekki ráða við að sinna bæði innanríkismálum, þeim málum sem eru brýnust, og svo að vera með þessa umsókn því að eins og fréttist innan úr ráðuneytunum eru þau nánast á hliðinni vegna þessarar umsóknar. Mikil hagræðingarkrafa er sett á hendur ríkinu, ekki má fjölga starfsfólki þannig að það starfsfólk sem vinnur í ráðuneytunum vinnur þessa vinnu samhliða skyldustörfum sínum. Það hefur komið fram í samtölum við fulltrúa ráðuneytanna úti á nefndasviði að það er mikið vinnuálag og nánast ekki tími til að sinna öðru en þessu sem liggur hér fyrir.

Þess vegna er mikilvægt að við rjúfum þá kyrrstöðu sem við stöndum frammi fyrir og leyfum þjóðinni að ráða hvort þessu verður haldið áfram, hvort það sé þess virði að eyða a.m.k. 1 þús. millj. kr. af íslensku ríkisfé í þessa umsókn. Evrópusambandið ætlar að leggja til 4 milljarða kr., 4 þús. millj. kr., inn í þetta ferli, líklega til þess að kynna kosti sambandsins fyrir hinni fávísu þjóð, eins og Evrópusambandið kýs að kalla það, fávísu þjóð, Íslendingum, því að það kom fram í máli sendiráðsaðilans hér í fréttum fyrir helgi að allir þessir peningar ættu að fara til kynningarmála til þess að fræða Íslendinga um hvað Evrópusambandið raunverulega væri.

Frú forseti. Mér finnst það hálfgerð lítilsvirðing við íslensku þjóðina því að íslenska þjóðin er kannski jafnvel best til þess fallin að mynda sér skoðun um þetta mál. Þessi mál hafa verið á borði Íslendinga allt frá því að EES-samningurinn var tekinn upp árið 1994. Þessu máli hefur verið haldið volgu síðan þannig að Íslendingar vita nokk hvað er í boði. Ég minni þingmenn á að það er Ísland sem krefst þess að aðlagast Evrópusambandinu en Evrópusambandið er ekki að krefjast þess að Ísland aðlagist því. Það er nefnilega ekkert annað í boði, það eru 27 ríki þarna inni og við vitum öll hvernig umsóknarferli gengur fyrir sig, það eru engir pakkar, það eru engar slaufur, það er ekkert glimmer. Við vitum nákvæmlega hvað Evrópusambandið er og hvað það stendur fyrir.

Þessi tillaga hér er sáttatilraun til að skapa þjóðarsátt (Gripið fram í.) til þess að Íslendingar fái að velja. Auðvitað er það svo að staða íslenskra heimila er bágborin og auðvitað eigum við að setja innanríkismál í forgang þegar ástandið er með þessum hætti.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er nefnilega viðurkennd aðferð til að leiða fram þjóðarvilja í mikilvægum málefnum, það er kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál því að svo virðist sem ríkisstjórnin ætli ekki að bakka út sjálf. Fyrir síðasta þing var lögð fram þingsályktunartillaga um að draga umsóknina til baka. Varð hún ekki útrædd, því miður, því að auðvitað eiga allar þingsályktunartillögur sem koma fram í þinginu að hljóta hér afgreiðslu og málefnalega umræðu í nefndum. Sú tillaga var ekki útrædd og hef ég verið að spyrjast fyrir um hvort það eigi að leggja þá þingsályktunartillögu fram aftur. Ég hef ekki fengið svör við því.

Því er þessi tillaga hér um þjóðaratkvæðagreiðslu nú sem halda á í síðasta lagi 28. maí árið 2011 sáttatilraun til þess að sætta þjóðina, sætta stjórnvöld, að allir gangi hér í takt en ekki hver í sína áttina. Í raun og veru skiptir engu máli hvernig skoðanakannanir falla nú eða koma til með að falla í framtíðinni, það skiptir ekki máli fyrir mig því að það er alveg sama hvernig þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fer. Segi þjóðin já við því að halda áfram hefur ríkisstjórnin fengið fullt umboð til að halda þessari vegferð áfram og getur þá bent á röksemdir fyrir því að hér þurfi að leggja í mikla vinnu. Segi þjóðin nei er þetta mál út af borðinu og þá getur þessi auma ríkisstjórn kannski farið að sinna þeim innanríkismálum sem hún var kosin til með þeim litla meiri hluta sem hún hefur í þinginu. Ég hef stundum sagt að ríkisstjórnin hafi meiri hluta í þinginu á sunnudögum, svo tæpur er hann.

Hér er komið sáttatilboð frá fulltrúum allra flokka nema Samfylkingarinnar í þá átt að hjálpa ríkisstjórninni á fætur í þessu máli til að fólk geti líka farið að segja sannleikann en ekki hálfsannleikann þegar þetta mál ber á góma.

Það er nefnilega svo að allir stjórnmálaflokkar tala fyrir auknu lýðræði og beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunartöku, sér í lagi þegar um stór deilumál er að ræða. Því er þetta ekta mál til að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu því að þetta á ekki að vera nokkuð sem er sett inn í stefnuskrár flokkanna og reynir svo kannski aldrei á.

Þetta mál fer héðan úr þinginu inn í hv. utanríkismálanefnd, vonandi til þess að það fái þar skjóta afgreiðslu því að ekkert er mikilvægara en að þetta mál komi hér til afgreiðslu. Það er þá þingmanna að hafna þeirri sáttatillögu sem hér er lögð fyrir. Ég skora á hv. utanríkismálanefnd að vinna þetta mál hratt og vel því að það er til hagsbóta fyrir þjóðina að málið fái hér brautargengi og það yrði þá gengið til kosninga eigi síðar en 28. maí 2011.