139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnmál eru alltaf langhlaup. Það gildir um Evrópusambandið og aðild að því eins og allt annað. Sennilega hefur enginn þingmaður í þessum sölum jafnmikla reynslu af því að horfast í augu við skoðanakannanir, erfiðar og góðar, og sá sem hér stendur sem hefur horft upp á 11% fyrir sinn flokk og allt upp í 45%. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það sem málið snýst um er þetta: Þjóðin verður að lokum spurð um vilja sinn til að ganga í Evrópusambandið. Þá mun hún hafa allar upplýsingar fyrir framan sig, samning, og á þeim grunni getur hún tekið upplýsta afstöðu þegar að því kemur.

Það er sjálfsagt að hv. þingmaður leggi fram þessa tillögu. Ég er á móti tillögunni og mun greiða atkvæði gegn henni eins og ég tel að meiri hluti þingsins muni gera þegar hún kemur til atkvæða. Það sem ég var að benda á var að hv. þingmaður tók þátt í að samþykkja og vinna lög sem eru þess eðlis að sérstök áhersla er lögð á að mál fari ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu nema að lokinni ákveðinni meðgöngu hjá þjóðinni, með öðrum orðum er í þeim lögum sem hv. þingmaður tók þátt í að vinna lögð áhersla á að menn rasi ekki um ráð fram heldur leyfi umræðu meðal þjóðarinnar áður en mál eru sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. En lagafrumvarpið sem liggur fyrir er svo flausturslega unnið að samþykkja þarf önnur lög til að það sé sjálft tækt til samþykktar. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum og ég hef aldrei orðið vitni að slíkum vinnubrögðum áður.

Spurning mín var þessi: Hvernig stendur á því að þegar málið var kynnt var það skýrt út með því að þjóðin vildi að umsóknin yrði tekið til baka en þegar fram koma aðrar kannanir sem sýna að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill halda áfram þá skyndilega skipta skoðanakannanir ekki nokkru máli hjá hv. flutningsmönnum? Svona rekur sig hvað á annars horn. (Forseti hringir.)