139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt hluti af þeim málflutningi að Íslendingar verði að kíkja í pakkann, að það sé svo spennandi að sjá hvað Íslendingum standi til boða að þeir verði einfaldlega að sækja um aðild og kíkja í pakkann eins og eitthvað stórkostlegt geti verið í þeim pakka.

Við vitum mætavel að í þessum viðræðum erum við í rauninni ekki að semja um hvernig við getum fengið meiri og óskoraðri rétt yfir sjávarútvegsauðlind okkar eða hvernig við getum fengið að stjórna landbúnaðinum meira og betur en við gerum í dag. Við erum bara að ræða hvernig Evrópusambandið kemst inn í þessar auðlindir. Það liggur fyrir að við erum að semja um að hve miklu leyti við erum reiðubúin að gefa eftir í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Ég vil ekki gefa neitt eftir, ekki neitt. Þess vegna vil ég að við ræðum þetta á þeim grunni að við munum þurfa, ef samningurinn verður að veruleika, að gefa eitthvað eftir af þessum tveim mikilvægustu grunnstoðum þjóðarinnar.

Það sem ég hefði hins vegar viljað fá meiri og betri umræðu um er af hverju menn vilja ganga í Evrópusambandið. Ég sé bara ein rök fyrir því, evruna. Evran, segja menn, við verðum að taka upp evruna. Ég held að núna liggi fyrir að krónan er að bjarga okkur í þeim hremmingum sem við erum að glíma við. Ég er hræddur um að ef við höfum ekki gjaldmiðil sem getur andað með hagkerfinu, er bara fastur, munum við fá varanlegt atvinnuleysi. Það er það sem ég óttast mest. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að efnahagslíf okkar heldur áfram að sveiflast. Efnahagslíf okkar í hinu litla landi fámennrar þjóðar (Forseti hringir.) mun halda áfram að sveiflast. Ef við getum ekki mætt því með krónunni okkar verður hér atvinnuleysi.