139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:31]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er lagt til að breyting verði gerð á 4. gr. laga um framkvæmd á þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis að víkja megi frá reglunni þar sem fram kemur að þrír mánuðir, hið skemmsta, þurfi að líða frá því að þingsályktunartillaga er samþykkt um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram þar til af henni getur orðið ef almennar kosningar eru boðaðar innan þessara þriggja mánaða.

Ég get vel tekið undir sjónarmiðin sem koma fram í greinargerðinni að þetta mundi fela í sér verulegan sparnað fyrir ríkissjóð. Ég vil þó spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvernig hún ætlast til að farið verði með mál sem ákveðið er að greiða þjóðaratkvæði um ef almennar kosningar eiga að fara fram nokkrum dögum eða viku síðar. Á Alþingi að geta ákveðið þjóðaratkvæðagreiðslu með svo skömmum fyrirvara? Ég spyr vegna þess að þetta kemur ekki fram í frumvarpinu.