139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging og orkunýting í Þingeyjarsýslum.

102. mál
[18:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum. Að þessari þingsályktunartillögu standa 26 þingmenn. Það er kannski merkilegt að í þeim þingmannahópi er meiri hluti iðnaðarnefndar. Jafnframt er næsta mál á dagskrá algjörlega samkynjað, nema þar hafa menn ekki viljað ganga jafnhart fram í yfirlýsingum þannig að ég held að með réttu mætti telja í atkvæðagreiðslu alla vega 30 þingmenn sem styddu það.

Þetta mál, atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum í tengslum við orkunýtingu, er orðið mikil sorgarsaga. Í kjölfar þess að álver var byggt á Reyðarfirði, Fjarðaál, sýndi Alcoa mikinn áhuga á því að byggja sams konar álver bæði á Húsavík og á Grænlandi og ætlaði að nota það þríeyki til að ná niður kostnaði með því að samnýta ýmsa þjónustu sem þau álver þyrftu. Í kjölfarið lýstu þeir yfir áhuga á að reisa álver þarna. Síðan var farið af stað og undirbúningur byrjaður á því öllu saman.

Sumarið 2008 tók Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, þá ákvörðun — án umræðu í ríkisstjórn og án vitundar formanns síns flokks og formanns samstarfsflokksins — að setja Þeistareykjaverkefnið eða orkunýtingarverkefnið og uppbyggingu álversins í sameiginlegt umhverfismat. Það leiddi til þess að verkefnið tafðist. Það tafðist það mikið að það er ekki fyrr en núna 25. nóvember, rúmum tveim árum seinna, næstum því tveimur og hálfu ári seinna, sem er von á að þessu sameiginlega umhverfismati ljúki. Í millitíðinni hefur margt gerst. Þeir hjá Alcoa hafa þurft að taka önnur verkefni fram yfir og það er alls óvíst með hvernig þeir munu bregðast við þessu sameiginlega umhverfismati. Það er því óhætt að segja að þessi ákvörðun fagráðherra sumarið 2008 hafi leitt til þess að þjóðarbúið hafi orðið af gríðarlega miklum tekjum og atvinnutækifærum og Þingeyjarsýslurnar sérstaklega og Eyjafjarðarsvæðið hafi orðið illa úti út af ákvörðuninni. Svona er nú lífið, stjórnmálamenn eru misvitrir og sumir eru alls ekki vitrir.

Þetta verkefni er ákjósanlegt til þess að skjóta stoðum undir Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýslurnar. Það er ákjósanlegt til að leika sama leik og var leikinn á Miðausturlandi. Áður en Fjarðaálsverkefninu var hrint í framkvæmt ríkti mikil stöðnun á Miðausturlandi og vonleysi meðal íbúanna. Þar var svipað ástand og er núna í Þingeyjarsýslunum. Miðausturland er núna blómlegasti hluti Íslands í atvinnulegu tilliti. Þar verða til fjórðungur eða þriðjungur af gjaldeyristekjum Íslendinga. Þar er atvinnuleysi minnst á landinu, í kringum 3%. Ef við getum leikið þennan leik í Þingeyjarsýslunum mun það hafa svipaðar afleiðingar og í Fjarðabyggð. Þar munum við geta til langrar framtíðar skotið stoðum undir atvinnulífið, ekki bara fyrir atvinnulífið heldur til að fólk geti búið þar við þokkaleg kjör.

Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, oddviti í kjördæminu, flutti mjög góða tölu áðan og kom inn á hlutverk Landsvirkjunar í þessu öllu saman. Ljóst er að sveitarfélagið var búið að steypa sér í miklar skuldir í kringum orkunýtingaráformin, það hafði að fjárfest mikið í rannsóknum, tilraunaborholum. Núna liggur fyrir að búið er að bora sex holur, hver þeirra kostar held ég 400–500 milljónir. Sveitarfélagið var komið út í horn fjárhagslega og neyddist til að selja Landsvirkjun sinn hluta í verkefninu. Það var náttúrlega gert gegn þeirri yfirlýsingu að orkan yrði nýtt þarna á svæðinu þannig að þeir mundu ekki skerða framtíðarmöguleika með því að hafa áhrif á atvinnuuppbyggingu.

Nú ber svo við að þeir hjá Landsvirkjun hafa dregið mikið í land, þeir segja m.a. að ekki sé hægt að tryggja nema um 100 MW þarna sem er ekki nóg fyrir fyrsta áfanga í álverinu sem þyrfti að rísa. Ef við segjum að fyrsti áfangi sé 180 þús. tonn væru það um 260 MW sem þyrfti að tryggja. 100 MW liggja nú þegar fyrir þannig að Landsvirkjun er þá ekki tilbúin til að ábyrgjast nema það sem liggur fyrir í þessum sex holum á Þeistareykjum, sem eru tæplega 50 MW, í Bjarnarflagi og í Vítismóum.

Þetta er mikil stefnubreyting hjá Landsvirkjun og þar er talað eins og þetta sé árangur af nýrri stefnu sem framkvæmdastjórn og stjórn fyrirtækisins hafi mótað. Ég hef spurt hvort þetta sé vilji stjórnvalda eða handhafa hlutabréfsins í Landsvirkjun sem er hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hef spurt hann persónulega hvort hann hafi haft áhrif þar á. Hann neitar því. Hann hefur neitað því, kannski ekki persónulega en á fundum hefur hann neitað því þegar ég hef spurt hann.

Það er því algerlega ljóst að Landsvirkjun leikur lausum hala og fer þvert á stefnu stjórnvalda vegna þess að stjórnvöld hafa, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór ágætlega yfir áðan, lýst því yfir að þau vinni af einlægni að orkunýtingarverkefni á þessu svæði og þar séu Þeistareykir undir eins og fyrr hefur verið minnst á.

Mig langar að spyrja hvort stjórnvöld ætli að láta Landsvirkjun algjörlega óáreitta í þessari stefnu sinni eða hvort til standi að stjórnvöld, sem eigendur, skipti sér af að því hvaða stefnu fyrirtækið taki.

Því miður er enginn til svara frekar en vanalega þegar við stjórnarandstæðingar berum fram mál okkar. 1. þingmaður kjördæmisins, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, er víðs fjarri eins og vanalega.