141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er ásamt hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og fleirum flutningsmaður að þessu máli. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir frumkvæði að því enda er hún 1. flutningsmaður þess og það er að mínu mati ákaflega brýnt. Eftir því sem ég hef unnið lengur með viðskiptamálin, sem flutt voru fyrir ári inn í nefndina sem áður var efnahags- og skattanefnd en heitir nú efnahags- og viðskiptanefnd, verð ég æ sannfærðari um að þetta sé eitt af brýnustu verkefnum okkar Íslendinga að taka á eftir hrun.

Við þurfum að læra af þeirri bitru reynslu sem við höfum aflað okkur og setja leikreglur samfélaginu til framtíðar sem verði því farsælli í efnahagsuppbyggingu og þeim vexti sem við væntum að verði hér á næstu árum en var fyrir hrun.

Það að aðskilja fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi felur ekki í sér að fordæma aðra starfsemina en lofa hina heldur einfaldlega þá afstöðu að þetta tvennt eigi illa saman. Það lærðu Bandaríkjamenn af heimskreppunni miklu og þar höfðu stjórnmálamenn pólitískt þrek til að skilja þar á milli. Ég tel að það sé ein af þeim lykilákvörðunum sem lögðu grunninn að áratugalöngum efnahagslegum uppgangi Bandaríkjanna og sífellt vaxandi lífskjörum þar í landi um áratugaskeið.

Illu heilli var horfið inn á aðrar brautir undir lok síðustu aldar og það hafði alvarlegar afleiðingar, ekki bara hér á Íslandi heldur á alþjóðamörkuðum. Ástæðan fyrir því að skilja þarf á milli þessarar starfsemi er sú að hún er svo eðlisólík. Annars vegar er viðskiptabankastarfsemin sem eru nauðsynlegir innviðir fyrir venjulegt fólk og fyrirtæki í landinu til að hafa launareikninga sína, fá yfirdrátt þegar þannig stendur á, sækja til um fjármögnun á heimilisbílnum eða aðstoð við húsnæðisöflunina og aðrar slíkar grunnþarfir venjulegs fólks og fyrirtækja í landinu.

Hins vegar er fjárfestingarbankastarfsemin sem á að vera áhættusækin, djörf og á stundum stórtæk vegna þess að hún þarf að fjárfesta í áhættusömum verkefnum, hún þarf að vera tilbúin til að taka áhættu, tapa fjármunum, leggja undir vegna þess að hún á að vera aflvaki nýsköpunar og nýrra fjárfestinga og aukinnar framleiðni og arðs í hagkerfinu öllu. En sú starfsemi fer ákaflega illa með hinni hefðbundnu viðskiptabankastarfsemi og hætt er við því að hún geti haft mjög óeðlileg áhrif á þá starfsemi, auk þess sem hún getur auðvitað sett í hættu þá innviði sem allt samfélagið treystir á sem er hin hefðbundna viðskiptabankastarfsemi.

Þannig er það til dæmis í veruleikanum að þóknanir í fjárfestingarbankastarfsemi geta verið gríðarlega háar, t.d. við hlutabréfaútboð og aðra slíka hluti. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að slíkar tekjur á fjárfestingarbankasviði verði til þess að skapa óeðlilegan þrýsting á útlánastarfsemi í viðskiptabankanum til þess að greiða fyrir fyrirtækjum sem skapa mikla arðsvon fyrir fjárfestingararminn í samstæðunni.

Einnig er full ástæða til að hafa áhyggjur af því, í þeirri þríokunarstarfsemi sem er á fjármálamarkaði, þar sem þrjú fjármálafyrirtæki drottna yfir fjármálamarkaðinum, að allt samkeppnisumhverfi á fjárfestingarbankamarkaði sé brogað og að stór og öflug fyrirtæki geti notað aðstöðu sína til að gera erfitt fyrir um samkeppni á þessum markaði og nýjum aðilum erfitt að hasla sér völl sem hefur líka vond efnahagsleg áhrif fyrir samfélagið í heild sinni með því að draga úr samkeppni á þessu mikilvæga sviði. Síðast en ekki síst er það áhyggjuefni, sem fólk um heim allan hefur haft áhyggjur af, þ.e. hættan á því að innstæður í viðskiptabönkum verði veðandlag fyrir stöðutöku í fjárfestingarbankastarfsemi og menn hirði hagnaðinn af áhættusömum viðskiptum þegar vel gengur en síðan þegar illa gengur þá sé tapið þjóðnýtt með ríkisábyrgðum á innstæðum og öðrum slíkum þáttum sem eðlilega fylgja viðskiptabankastarfseminni.

Um heim allan eru menn að gera tillögur um að draga einhverjar línur þarna á milli, reisa einhverjar skorður við því að þessi starfsemi fari saman eða eignarhald. En flestum öðrum svæðum er sá vandi á höndum að þar eru mjög flókin tengsl á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi, eins og í Englandi, þar sem ein skýrslan hefur komið fram, eins og í Bandaríkjunum, eins og í Evrópusambandinu, og þess vegna þurfa menn þar að sníða tillögur sínar að þeim veruleika sem við blasir. Þeir geta sannarlega ekki gengið jafnlangt og við Íslendingar höfum tækifæri til að gera núna.

Ég held að við höfum einstakt tækifæri til að taka á þessu. Ég verð að lýsa mig ósammála því sem kom fram hjá Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóra finnska Fjármálaeftirlitsins, á dögunum um það að nú væri fjárfestingarbankastarfsemi hér í lágmarki og við gætum út af fyrir sig bara tekið á þessum aðskilnaðarþætti ef og þegar sú starfsemi færi að vaxa. Ég held að það væri mikið óráð að bíða þangað til vegna þess að þá eru orðnir hagsmunir í húfi. Þá verður miklu erfiðara um vik að taka hinar pólitísku ákvarðanir um aðskilnað. Þá mundu slíkar ákvarðanir bitna á fyrirtækjum sem starfa bæði á viðskipta- og fjárfestingarbankamarkaði.

Ef þessi ákvörðun yrði tekin núna, við þær aðstæður sem við búum við í dag, þá, ólíkt því sem gerist hjá flestum öðrum þjóðum, hefði hún óveruleg neikvæð áhrif á viðskiptabankana í landinu. Menn gætu einfaldlega skipulagt vöxt sinn til framtíðar miðað við það umhverfi sem við viljum að sé hér til áratuga. En ef við bíðum verða þessir bankar auðvitað komnir í hendur nýrra eigenda, alla vega sumir, og ef fjárfestingarbankastarfsemi hefur vaxið umtalsvert frá því sem nú er og afkoma af því orðin umtalsverður hluti af starfsemi þessara viðskiptabanka verður auðvitað umtalsverður þrýstingur gegn því að nokkur viðskilnaður verði gerður. Því er um að gera að sæta lagi og ég held að þessi þingsályktunartillaga og samþykkt hennar væri leið að því marki.