143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Á opinn fund efnahags- og viðskiptanefndar í gær mættu fulltrúar Seðlabankans til að ræða nýjustu skýrslu bankans um peningamál. Á þeim fundi fengu seðlabankamenn spurningu um þær hugmyndir sem heyrst hafa um að fjármagna niðurfærslu skulda heimilanna í gegnum efnahagsreikning Seðlabankans. Seðlabankamenn svöruðu eðlilega spurningunni aðspurðir út frá afstöðu sinni, bentu á að það þyrfti lagabreytingar til og að slíkt gæti verið varhugavert frá sjónarhóli fjármálastöðugleika, valdið verðbólgu enda væri það ígildi peningaprentunar.

Þá ber svo við að hæstv. forsætisráðherra veitist að Seðlabankanum sérstaklega fyrir þessi svör í fjölmiðlaviðtölum í gærkvöldi. Til dæmis á Stöð 2 sagði forsætisráðherra að þetta væri ákaflega sérkennilegt, Seðlabankinn byrjaði á því að gefa sér einhverjar forsendur og segði svo að ef þetta og hitt þá yrði það svona og hinsegin. (Gripið fram í: Icesave.) Og síðar sagði forsætisráðherra þetta vera ákaflega sérkennilega nálgun sem ætti miklu meira skylt við pólitík en almenna stjórn efnahagsmála eða þá hlutdeild í henni sem Seðlabankinn á að hafa umsjón með.

Hér fer hæstv. forsætisráðherra einfaldlega rangt með. Seðlabankinn gaf sér engar forsendur í þessum efnum fyrir fram og tók ekki upp þetta mál að fyrra bragði heldur svaraði aðspurður beinni efnislegri spurningu. Ég tel það alvarlegt að forsætisráðherra veitist með þessum hætti að ósekju að Seðlabankanum. Það er umhugsunarefni fyrir okkur sem þingmenn og þingnefndarmenn ef gestir á þingnefndarfundum þurfa að sæta meðhöndlun af þessu tagi þegar út í þjóðfélagið er komið, af hálfu ráðamanna. (Gripið fram í.)

Ég beini því máli mínu til formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Ég tel að formaður nefndarinnar eigi í þessu tilfelli að taka upp hanskann fyrir gestina sem sæta ósanngjarnri meðhöndlun þegar látið er að því liggja að þeir hafi gefið sér einhverjar forsendur eða skáldað sér upp (Forseti hringir.) tilefni til þess að geta komið afstöðu sinni á framfæri. Þeir voru að svara spurningu á fundi (Forseti hringir.) þingnefndar, virðulegur forseti.