143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit hef ég gaman af að spá í gang hinna pólitísku himintungla. Ég hef mínar verstu grunsemdir, en þær byggja bara á fimbulfambi mínu og ég tel ekki tilefni til að tefja þingið með því að láta þær koma fram.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það er ákveðin sál í þessum lögum og ákveðin samfella. Hv. þingmaður tók til dæmis eftir því að ég eyddi ekki tíma mínum í að reifa hina sérstöku vernd sem mér finnst mjög merkileg, sem er í 57. gr. ef ég man rétt, sem er þó ekki annað en framþróun á 37. gr. í lögunum frá 1999 þar sem sagt er að forðast skuli röskun náttúruminja eins og kostur er en núna sagt að það skuli gera ef ekki er annarra kosta völ. Eins og hv. þingmaður man er þetta það ákvæði sem atvinnulífið festi klær sínar í.

Ég man langt aftur, en kannski er það ekki lengra síðan en 2007/2008 þegar menn veltu fyrir sér þessum lögum af hálfu atvinnulífsins, gott ef það er ekki skýrsla frá VSÓ ráðgjöf, jú, sem skoðaði þetta ákvæði. Það verktakafyrirtæki úti í bæ sem var fengið til þess að skoða þetta komst að þeirri niðurstöðu að þetta skipti engu máli fyrir atvinnulífið vegna þess að þetta varðaði náttúrufyrirbæri sem atvinnulífið kemur aldrei nálægt — eldvörp, eldhraun, slíka hluti sem eiga að njóta sérstakrar verndar — þannig að ég eyddi ekki tíma mínum í það. Ég tel að að ráðherrann geri ekki ágreining um það við okkur.

Það er annað í þessu sem við höfum farið yfir í dag sem hæstv. ráðherra er illa við og ég tel að í þessari stöðu eigum við að leita samninga til þrautar til að varðveita meginreglurnar. Þær skipta mestu.