143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Já, sáttin er mikilvægust fyrir einn aðila þessa máls og það er sá sem á að njóta vafans. Það er náttúran.

Ég lít á þetta úr þeirri stöðu að hér er um að ræða lög sem ég tel mjög mikilvæg. Ég tel marga kafla þeirra vera mjög mikilvæga og hef sagt það hér áður að það er að sönnu samfella í þeim. Það er samt sem áður þannig að frekar en að sjá þeim kastað vildi ég sjá ákveðna hluta í gildi.

Mér finnst þegar ég les greinargerðina og ég bendi hv. þingmanni á að lesa tvær síðustu málsgreinarnar — þar er bókstaflega sagt að vinnan í framhaldinu verði mjög löng og tímafrek. Ekki ætlar þetta fólk að fara að leggja fram umdeild lög á árinu fyrir kosningar. Ég dreg því þá ályktun að menn séu hættulega nærri því að ætla að gera ekkert á þessu kjörtímabili. Þá vil ég frekar eitthvað en ekkert.