143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem vekur áhyggjur við þessa málsmeðferð hæstv. ráðherra er að það kemur ekki fram hvaða atriði þarf að skoða nánar og hvaða hagsmunir eru svo brýnir að eðlilegt sé að láta vernd náttúru og umhverfis lúta í lægra haldi. Ég fyrir mína parta tel að hér sé verið að sýna pólitískt vald, hér sé verið að draga til baka lög sem muni valda því að ekki verði sett ný löggjöf á þessu sviði á mörgum næstu árum. Ég tel að þessi aðgerð einkennist af áhugaleysi viðkomandi hæstv. umhverfisráðherra á náttúruvernd.