143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:47]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara spurningum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur.

Ég held að það sé alveg óhætt að segja að því er tekið fagnandi að leiðandi afl skuli í rauninni vera mikil fagmennska og fagþekking og annað þegar kemur að friðlýsingu o.fl. fyrir sveitarstjórnarstigið.

Umhverfisþing eru haldin einu sinni á ári. Samband íslenskra sveitarfélaga heldur reglulega málþing um sjálfbærni og síðan eru náttúrunefndirnar, þær hittast einu sinni á ári og hittust síðast í Garðabæ sem er mjög táknrænt í rauninni.

Í dag er helstu verkefnin sem sveitarfélögin kljást við að skipuleggja og bera kostnað af því að vernda ákveðin svæði sem viðkoma ferðamennsku. Það er stórt og mikið verkefni. En þótt gerð sé rík krafa um að sveitarfélögin standi í lappirnar þegar kemur að því að eyða peningum í að bæta aðgengi þá er oft fjárhagslegur leki úr sveitarfélögunum og peningurinn sem kemur af ferðamennsku skilar sér ekki til tiltekinna sveitarfélaga sem þar koma að máli.

Ég fagna innilega náttúruminjaskrá. Við erum að skipuleggja ný hverfi og byggja ný hverfi. Það mætti kveða skýrara á um hvað er á náttúruminjaskrá þegar kemur að því leggja vegi o.fl. Vil ég t.d. minnast á nýlega framkvæmd við Gálgahraun. Ég held að ef til hefði verið stór og virk náttúruminjaskrá værum við ekki í klemmu með þá vegaframkvæmd eins og virðist vera. Ég held að hægt sé að koma algjörlega í veg fyrir slík átök með skýrri náttúruminjaskrá. Hún ætti að vera til gagns og nota fyrir öll sveitarfélög á landinu.