144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

heilbrigðismál.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra rakti ágætlega áðan er undirbúningsvinnan löngu hafin. Hún hófst mjög snemma í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur gengið vel. Eins og allir hér inni þekkja samt er fjármögnunin stóra vandamálið með hinar brýnu og nauðsynlegu framkvæmdir á Landspítalanum. Sem betur fer er stefna nýrrar ríkisstjórnar farin að skila árangri að því marki í efnahags- og fjármálum að það fer að verða raunhæft að ráðast í þessar brýnu úrbætur. Hversu hratt það gerist og hvenær nákvæmlega það hefst veltur að sjálfsögðu á því fjármagni sem er til ráðstöfunar og líka á því hversu skynsamlega menn geta farið með fjármagnið, þ.e. hversu vel það nýtist. Þess vegna skiptir svo miklu máli að verkið sé undirbúið á þann hátt að það fjármagn sem þó verður til ráðstöfunar nýtist sem allra best. Þess vegna er undirbúningsvinnan sem hefur verið unnin svo mikilvæg og þess vegna er mikilvægast af öllu að þessari ríkisstjórn skuli loksins hafa tekist eftir margra ára bið að ná tökum á ríkisfjármálunum að því marki að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir eins og þær að byggja upp heilbrigðiskerfið.