145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

stöðugleikaskattur og stöðugleikaframlög.

[11:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um téð stöðugleikaframlög. Nú var haldinn fundur í samráðsnefnd þingflokka um losun hafta hér á þriðjudag og farið aðeins yfir stöðu mála hvað varðar stöðugleikaframlög eins af slitabúunum sem um ræðir. Það liggur fyrir, og það er ekkert óeðlilegt við það, eins og mér fannst hæstv. forsætisráðherra nánast gefa til kynna hér áðan, að sú leið sem stjórnvöld kynntu snemmsumars snerist fyrst og fremst um stöðugleikaskattinn. Við sem skoðuðum glærukynningu hæstv. ráðherra sáum allmargar glærur um stöðugleikaskattinn og stöðugleikaframlögin voru nánast kynnt sem aukaleið. Síðan ræddum við þessar leiðir hér í þinginu, báðar leiðirnar voru samþykktar.

En það skiptir hins vegar máli, og á það bentu fulltrúar minni hlutans í málsmeðferð um málið, að á meðan skattlagningin er gagnsæ leið, nokkuð borðleggjandi, fyrir liggur hvað felst í henni, þá er hin leiðin, og því hef ég engan heyrt andmæla, talsvert ógagnsærri. Það er miklu flóknara að koma upplýsingum til skila um hvað í þeim felst því að þar er um að ræða nauðasamninga við slitabú.

Stöðugleikaskatturinn, eins og við munum, var kynntur sem 850 milljarðar, sem síðan, miðað við frádrætti, átti að vera í kringum 690 milljarðar. Við vitum þá alla vega umfang vandans, aflandskrónurnar, slitabúin, þetta eru um 1.200 milljarðar kr.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji þau tilboð sem væntanleg hafa verið lögð fram, og upplýsingar berast um og við eigum eftir að fá nánari upplýsingar um, séu nálægt því að lagfæra þann vanda þannig að almenningur geti losnað úr höftum, ekki aðeins slitabúin. Í öðru lagi spyr ég um gagnsæið, hvort ekki standi til að birta útreikninga á muninum á þessum leiðum. Því að þó þær séu ólíkar þá er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við hér á þinginu sem og allur almenningur í landinu fáum mjög skýra sýn á þetta því að það eru mjög stórir hagsmunir sem hér um ræðir.