145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn, og ég hugsa ekki síðasta sinn, sem ég og hv. þingmaður ræðum þessi mál. Þetta er mjög kunnugleg ræða sem hann hefur flutt hér í dag. (Gripið fram í: Hún er góð.) Hún er alltaf jafn góð, ég hef heyrt hana nokkrum sinnum áður.

Það eru ýmsar fullyrðingar sem koma fram í máli þingmannsins. Í fyrsta lagi hóf hann mál sitt á að segja að í hátt í tvö ár hefði þetta mál verið hér til umræðu. Nei, virðulegur forseti, þetta mál hefur verið hér til umræðu mun lengur, líka þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn og hafði þá kannski meira um það að segja hvaða lög væru sett í landinu. (ÖJ: Þá var ekki byrjað að rukka, enga svona útúrsnúninga.) Það er önnur fullyrðing sem hv. þingmaður kemur hér með og hún er sú að gjaldtakan, og hann nefnir Kerið, sé ólögmæt. Þar er ég ósammála hv. þingmanni vegna þess að það hefur enginn dómstóll ályktað um að slík gjaldtaka sé ólögmæt. Það sem meira er, það hefur ekkert dómsmál verið höfðað um það hvort þessi gjaldtaka sé ólögmæt. Þau dómsmál sem farið hefur verið í og dæmt hefur verið í, bæði varðandi Geysi og einnig fyrir norðan, snúa að því hvort meiri hluti landeigenda megi taka ákvarðanir í bága við minni hluta landeigenda, þetta er sem sagt húsfélagsmál og það hefur verið úrskurðað, og Hæstiréttur hefur staðfest það, að slíkt megi ekki. En það er ekki verið að úrskurða um það hvort það megi innheimta eða ekki.

Hv. þingmaður vísar í úrskurð Umhverfisstofnunar sem dómsvalds í þessu. Ég verð að vera ósammála því. Þetta var reyndar ekki úrskurður, heldur var þetta bréf sem Umhverfisstofnun sendi umhverfisráðherra í júní 2014. Þar heldur Umhverfisstofnun því fram að landeigendur við Kerið megi ekki innheimta gjald af ferðamönnum þar sem svæðið sé á náttúruminjaskrá, að Umhverfisstofnun hafi samkvæmt lögum umsjón með slíkum svæðum og að heimildir til gjaldtöku á slíku svæði séu á hendi Umhverfisstofnunar eða þeirra sem Umhverfisstofnun hefur gert samning við um umsjón svæðisins, en að þá verði að kveða á um heimildir til gjaldtöku í samningnum.

Við leituðum lögfræðiálits á þeim tíma varðandi þetta atriði. Í því lögfræðiáliti, sem við fengum frá fyrirtækinu Landslög, var niðurstaðan sú að með því að kveða á um að Umhverfisstofnun hafi umsjón með náttúruverndarsvæðum þá sé ekki verið að flytja hefðbundin eignarráð eigenda landsins til Umhverfisstofnunar. Meðal annars er bent á það í þeim úrskurði að ef svo hefði átt að vera þá væru ýmis ákvæði í lögunum óþörf, t.d. það þar sem kveðið er á um hvernig skuli fara með ef samkomulag næst ekki um friðlýsingu. (ÖJ: Skrifuðu Landslög …?) Landslög telja jafnframt að slíkt ákvæði — og ég vil biðja (Gripið fram í: Rólegur Ögmundur.) hv. þingmann um að hlusta á umræðuna —

(Forseti (ÞorS): Hljóð í salnum.)

um að flytja eignarráðin frá eigendunum væri að öllum líkindum andstætt stjórnarskrá.

Þá ætla ég að koma að því sem ég tel vera mikilvægast í þessu máli og það snýr að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Við þurfum að fara eftir stjórnarskránni hér í þessum sal hvað sem okkur kann að finnast. Þar stendur skrifað skýrt: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almannaþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Og eignarrétturinn, hann er skilgreindur neikvætt, þ.e. að gengið er út frá því að eigandi megi gera það sem hann vilji við eign sína nema þær heimildir séu takmarkaðar með beinum hætti með samningum eða lagaákvæði. Og það má líka draga þá ályktun að séu eignarréttindi landeigenda ekki takmörkuð með samningum eins og til dæmis í þessu máli eða í ákvæðum laga sé eiganda fasteignar bæði heimilt að banna umferð um fasteign og innheimta gjald af þeim sem vilja fara og skoða.

Þá komum við að almannaréttinum sem er líka mikilvægur, sannarlega. Hann er bundinn og varinn með lögum, en eignarrétturinn í stjórnarskrá. Ákvæði náttúruverndarlaga um almannarétt þarf því að skoða í samhengi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Um þetta ríkir einfaldlega ekki einhugur. Hver er það þá sem úrskurðar? Er það hv. þm. Ögmundur Jónasson? Nei. Er það Umhverfisstofnun? Nei. Það eru dómstólar. Ég segi það aftur, hvort sem þingmanninum líkar það betur eða verr: Slíkt mál hefur ekki verið höfðað. (Gripið fram í.) Á meðan slíkt mál hefur ekki verið höfðað þá getur sú sem hér stendur ekki sent eða sigað lögreglunni á einn eða neinn (Forseti hringir.) vegna þess að iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með ferðamál hér í landinu líka, hefur einfaldlega ekki heimildir til að siga lögreglunni á eitthvað sem er ekki búið að dæma um að sé ólöglegt. (ÖJ: … á móti almannarétti.)