146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framlagning tveggja skýrslna.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hefði nú haldið að hæstv. forsætisráðherra gæti gert aðeins betur í sínu svari. Það voru jú 22 skriflegar fyrirspurnir aðrar sem lágu hér ósvaraðar þegar hæstv. fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra gekk úr síðustu ríkisstjórn með sínum félögum þannig að vissulega er talsvert um fyrirspurnir sem ekki er svarað.

En hér er um að ræða tvær skýrslur. Ég hef ekki sagt það nokkurs staðar að ég telji endilega að inntak aflandsfélagaskýrslunnar hefði getað haft áhrif á úrslit kosninganna þó að hæstv. ráðherra láti sem svo. Hins vegar er það ekki nema eðlilegt þegar um er að ræða stórpólitískt mál sem varð til þess að kosningum var flýtt, þegar það liggur fyrir, að það sé birt þegar það er tilbúið. Og sama má segja um leiðréttingarmálið. Ég er heldur ekki að segja að það hafi endilega haft áhrif á úrslit kosninganna. En þetta er stórpólitískt mál, stærsta pólitíska mál síðustu ríkisstjórnar. Er ekki eðlilegt þegar þingmenn leggja fram beiðni 2015, í október 2015, að við gerum kröfu til þess að það liggi fyrir svör, á þeim heilu átta blaðsíðum sem bárust, fyrr en raunin varð?