146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Svarið við spurningunni er nei, þannig að það sé frá. Það er eins og hv. þingmaður sé að spyrja sjálfan sig hvort fram komnar skýrslur hefðu mögulega getað haft einhver jákvæð áhrif á hennar eigin flokk í kosningunum. Ég get ekki svarað því í sjálfu sér, en ég kalla eftir því að hv. þingmaður sem vill taka efnisatriði þessara skýrslna á dagskrá bendi á þau atriði sem skorti í umræðuna um annað hvort þessara mála. Í aflandsskýrslumálinu; hvaða efnisatriði voru það sem komu í veg fyrir að hv. þingmaður gæti beitt sér og sett Panama-skjölin rækilega á dagskrá eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir gerði svo eftirminnilega í sjónvarpssal daginn fyrir kosningar eða allir aðrir sem vildu gera þetta að hinu stóra kosningamáli? Hvaða efnisatriði voru það í skýrslunni sem hv. þingmaður hefði svo gjarnan viljað hafa? Er það að erfitt sé að leggja mat á þetta? Er það að við séum í stórkostlegum gagnaskorti með þessi mál? Er það að það er ekkert sérstakt sem skýrslan bendir á að stjórnvöld hafi látið undir höfuð leggjast að gera til þess að koma í veg fyrir þessi mál? Hvaða efnisatriði eru það sem hefðu getað bjargað Samfylkingunni í síðustu kosningum ef þau hefðu bara legið fyrir áður en kosið var?

Eða hin skýrslan um efnahagsleg áhrif leiðréttingarinnar. Það er auðvitað synd að við skulum ekki hafa látið taka saman líka með sama hætti dreifingu á tekjutíundir af 110%-leiðinni þar sem 7 milljónir fóru að meðaltali til hverrar fjölskyldu sem átti fasteign, en í leiðréttingunni voru það 1,2 milljónir. Í 110%-leiðinni, hvað ætli hafi farið mikið af þessum meðaltals 7 milljónum til þeirra sem enga fasteign áttu? 0 kr. Núll. Auðvitað fer ekkert til þeirra í slíkri aðgerð sem ekki eiga fasteign og skulda ekki fasteignalán. En það er í raun og veru efnisatriði þessarar skýrslu. Og ég óska eftir því að menn fari fram á sérstaka umræðu um áhrif leiðréttingarinnar. Það væri gaman að taka þátt í því. Setjum efni þeirrar skýrslu síðan í samhengi við ýmsar aðrar aðgerðir sem gripið var til, 110%-leiðina, dómstólaleiðréttinguna á gjaldeyrislánunum og veltum því fyrir okkur hér í þingsal hversu mikið af barnabótum rötuðu til barnlausra fjölskyldna eða jafnvel (Forseti hringir.) hversu mikið af vaxtabótum skiluðu sér til þeirra sem ekkert lán skulduðu.