148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samgöngur til Vestmannaeyja.

[15:42]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að fjölyrða í þessum sal við þingmenn um þær hremmingar sem Eyjamenn hafa gengið í gegnum í samgöngumálum síðustu misserin, reyndar síðustu árin, ekki síst hvernig þetta hefur artað sig með Landeyjahöfn og hversu vangæf hún er fyrir sandburði og ölduhæð. Það stendur þó vonandi að einhverju leyti til bóta með nýrri ferju seinna á árinu.

Þetta eru náttúruleg fyrirbrigði sem við höfum ekki mikið yfir að segja, en einn þátturinn í þessu máli, sem er þó á okkar valdi og við getum lagað strax, er í raun og veru sú tvöfalda refsing sem Eyjamönnum er gerð þegar er ekki er siglt í Landeyjahöfn. Ekki er nóg með að siglingatíminn sexfaldist í vetrarbrælunum sem ríkja, heldur þrefaldast verðið líka, þ.e. fargjaldið. Það er tvöfaldur ami sem menn hafa af þessu. Þetta er auðvitað mikið réttlætismál að laga. Um er að ræða hluta af þjóðvegakerfinu og að öðru leyti búa menn ekki við það að verðið í Hvalfjarðargöngin t.d. hækki eftir því sem færðin spillist beggja megin við þau. Auðvitað er ekkert réttlæti í þessu.

Ég hef aðeins verið að sargast með þetta við hæstv. samgönguráðherra hér á göngunum og vildi taka málið upp í þessum stól og eiga við hann orðastað: Er ekki tími til kominn að leiðrétta þó ekki væri nema þennan litla part af því óréttlæti sem menn búa við að þessu leyti? Það hefur verið talað um að með nýrri ferju ætti þetta að lagast, þ.e. að það séu sömu fargjöld hvort sem siglt er í Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Er eftir nokkru að bíða með þetta, hæstv. ráðherra? Er ekki hægt að laga þetta núna?