148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samgöngur til Vestmannaeyja.

[15:47]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ég ætla að reyna að knýja aðeins á um að hæstv. ráðherra gefi okkur aðeins ákveðnari fyrirheit um að þetta litla en þó mikla óréttlæti verði lagað fyrr en síðar, helst um mánaðamótin.

Ég veit ekki hvort fólk gerir sér almennt grein fyrir því hvers lags gjald leggst þarna á, hvers lags skattur er lagður á þá sem þarna búa. Lauslega má áætla að venjuleg fjölskylda í Vestmannaeyjum þurfi að kosta til 30.000–60.000 kr. á mánuði í fargjöld með Herjólfi — með afslætti, þegar búið er að taka 40% afslátt af því. Það þýðir að sú fjölskylda þarf að hafa 40.000–100.000 kr. meira í laun á mánuði en annað fólk á Íslandi bara til að standa jafnfætis að þessu leyti. Það er bara Herjólfsskatturinn. Þess vegna vil ég knýja á um það við samgönguráðherra (Forseti hringir.) að hann gefi okkur aðeins skýrari svör um hvort þetta verði ekki lagað núna í fyrirsjáanlegri framtíð.