148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

greiðslur til þingmanna.

[15:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað til að ræða fílinn í stofunni, greiðslur til þingmanna. Ég þakka forseta fyrir það frumkvæði að taka málið strax til umfjöllunar í forsætisnefnd. Ég velti hins vegar fyrir mér hvers vegna þingið hefur ekki tekið af skarið og upplýst fjölmiðla, svarað þeim spurningum sem fjölmiðlar hafa spurt þingið um, hvað varðar allan ferðakostnað, ekki bara akstur þeirra þingmanna sem aka að heiman frá sér og til baka á hverjum degi heldur allan ferðakostnað, húsnæðiskostnað, kostnað við bílaleigubíla o.s.frv.

Nú fengum við til dæmis tvö mjög ólík svör um helgina frá tveimur hv. landsbyggðarþingmönnum. Annars vegar svaraði landsbyggðarþingmaður: Ég á þess ekki kost að afþakka húsnæðiskostnaðinn. Hins vegar svaraði annar landsbyggðarþingmaður: Ég hef aldrei þegið þessar greiðslur.

Við þurfum að auka traust almennings á þinginu. Við gerum það ekki með því að svara ekki fjölmiðlum. Þess vegna vil ég skora á þingið að svara öllum þeim spurningum er lúta að þessum greiðslum til þingmanna.