152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni hér mjög góðar spurningar. Varðandi langtímasýn og það að vera með einhver plön þá er það oft þannig þegar við erum í viðbragðsástandi að við erum stöðugt með þá tilfinningu að við séum að slökkva elda, en svo getum við farið að byggja upp. Og það skal alveg viðurkennt að eftir því sem faraldurinn hefur tekið breytingum eftir því hvernig veiran hefur þróast þá höfum við verið meira og minna í þeirri stöðu. Við höfum hins vegar haldið hér gangandi — ef ég tek bara ríkisfjármálin sem dæmi þá er það meðvituð ákvörðun að halda ríkisfjármálunum gangandi í gegnum þennan faraldur. Síðan er það ljóst að faraldurinn kemur ójafnt niður á atvinnugreinum. Ef við tökum efnahagshrunið og svona, þegar koma kreppur af einhvers konar völdum eða hamfarir, í þessu tilviki er um að ræða heimsfaraldur, þá kemur það ójafnt niður á atvinnugreinum. Það er bara birtingarmyndin. Við þurfum að búa við samfélagslegar takmarkanir til að hemja útbreiðslu smita og þá er augljóst að atvinnugreinar sem tengjast ferðaþjónustu, veitingarekstri, samkomuhaldi, viðburðum, og menningu verða verst úti. Við höfum reynt eftir föngum að bregðast við því með efnahagslegum mótvægisaðgerðum. Og svo þegar við sjáum að við erum að komast út úr þessu — það er sannarlega von og birta í tölunum í því sem snýr að innlagnartíðni og meðallegutíma, að við, heilbrigðiskerfið, náum að ráða við þetta hér, og við sjáum það hjá öðrum þjóðum sem eru tveimur, þremur vikum á undan okkur í þessari bylgju að þar eru að fara í gang afléttingar — þá á ég von á að atvinnugreinarnar nái sér á strik. Svo erum við byrjuð að leggja drög í ráðuneytinu mínu, heilbrigðisráðuneytinu, að lýðheilsuáætlun og geðheilbrigðisstefnu og ákveðinni vinnu með heilbrigðisstofnunum til að taka utan um heilbrigðisstarfsfólkið okkar.