152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Það voru kannski í seinni umferð ráð til þess sem hér stendur og ég skal gjarnan ganga betur á eftir þeim upplýsingum sem út af stóðu og snúa m.a. að stöðu aðgerða, krabbameinsmeðferða. Síðan kom hv. þingmaður inn á forvera minn í starfi, hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur, og ég get ekki tekið öðruvísi undir en að vera sammála hv. þingmanni. Ég hef tamið mér að taka áfram þá leiðsögn sem forveri minn í starfi setti. Ég legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að við höldum áfram, ekki síst þegar líður á faraldurinn og önnur sjónarmið eru uppi og þrá um að fara að komast út úr þessu og umræðan fer að verða sterkari um afléttingar og þess háttar, að aðrir þættir skipti máli, að taka leiðsögn og leiðbeiningum okkar virtasta vísindafólks og sóttvarnalæknis og taka mið af hans tillögu.