152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svarið. Mér fannst þetta áhugavert. Mér fannst áhugavert að heyra hann lýsa því að einstaka ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu í raun og veru að grafa undan markmiðum þessarar sömu ríkisstjórnar. Það er eiginlega ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi og maður þarf svo sem ekkert að fara í neinar túlkanir á því, hann sagði þetta nánast bara beinlínis og fullum fetum.

Það sem ég er kannski að reyna að koma að í þessu er að ef ríkisstjórnin hefur á annað borð þá stefnu að hér eigi að vera harðar sóttvarnatakmarkanir, ég hef ákveðnar efasemdir og reyndar fara þær vaxandi með degi hverjum hversu umfangsmiklar þær eiga að vera í ljósi breyttrar stöðu, nýs afbrigðis og bólusetningar og annað, en ef menn eru búnir að tala sig niður á þessa niðurstöðu þá eru þeir að sjálfsögðu frjálsir skoðanna sinna. En það fylgir því alveg feikilega mikil ábyrgð að vera ráðherra í ríkisstjórn. Það fylgir því alveg feikilega mikil ábyrgð að vera hluti af hópi sem ber ábyrgð á því að þjóðin sé þó a.m.k. í einhverjum takti og í einhverri sátt við þau markmið og þær aðgerðir sem settar eru til að ná einhverjum árangri gegn þessari veiru. Mér finnst algjörlega með ólíkindum að það geti verið svona stór hluti ríkisstjórnarinnar, einn fjórði, og svona stór hluti ríkisstjórnarflokkanna sem talar beinlínis gegn þessum markmiðum.

Ég myndi líka gjarnan vilja fá að vita, af því að við töluðum aðeins um aðkomu þingsins og við í Viðreisn höfum talað mikið um aðkomu þingsins og lagt til alls konar hluti í þeim efnum, hversu langt hæstv. heilbrigðisráðherra myndi vilja ganga í þeim efnum.

Við myndum vilja að heilbrigðisráðherra, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, mæti hér í þingið og rökstyðji þær ákvarðanir sem eru teknar þá fyrr um daginn á ríkisstjórnarfundi eða a.m.k. eins fljótt og auðið er og að samdægurs fylgi efnahagspakki. Af því að það er ekki bara þannig að við þekkjum það sem best gengur (Forseti hringir.) þegar kemur að sóttvörnum sjálfum, eftir tvö ár erum við farin að þekkja ágætlega líka hvað virkar af efnahagsaðgerðunum. Er hæstv. heilbrigðisráðherra tilbúinn til að fara svo langt með málið?