152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

uppbygging geðdeilda.

14. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem ég ætlaði að ræða í seinna andsvari, að uppbygging nýs geðspítala þurfi ekki að vera við Hringbraut og um það er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Ég tel ekki að geðsvið Landspítala þurfi að vera þar heldur tel ég að það geti verið í rauninni hvar sem er. Þó að við séum núna í þessari uppbyggingu á Hringbraut þá held ég að það liggi alveg fyrir að við þurfum að finna önnur úrræði fyrir ýmislegt annað. Það getur jafnvel verið að húsnæði geðsviðs Landspítala við Hringbraut nýtist ágætlega undir einhverja aðra starfsemi sem ekki kallar á möguleika á að komast út, læstar deildir eða þess háttar. Það getur vel verið að þetta séu bara kjöraðstæður til þess að byggja betur upp en byggja geðsvið Landspítala upp í betra umhverfi eins og við vorum að ræða. Þess vegna er þetta auðvitað þingsályktunartillaga þar sem lagt er til að skipa starfshóp.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi staðsetningu Reykjalundar, sem er náttúrlega í dásamlegu umhverfi og við erum með það víða annars staðar. Ég væri alveg til í að standa hér í allan dag og talar um heilbrigðismálin og nýtingu mannauðs og nýtingu húsakosts í heilbrigðiskerfinu víða um land, kragasjúkrahúsin og húsnæði víðar. Ég held að við viljum öll gera betur en það er alla vega alveg ljóst að þessar tvær staðsetningar á Kleppi og Hringbraut, eru bara óboðlegar sem og ástandið fyrir norðan.

Að lokum gefst mér aftur tækifæri til að tala um geðheilbrigðismálin og geðheilbrigðisþjónustu. Alveg sama hvað stjórnarliðar og ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala mikið um að geðheilbrigðisþjónusta sé í forgangi þá sé ég engar beinar aðgerðir í þágu geðheilbrigðis í þessum Covid-aðgerðum öllum, þær eru engar. (Forseti hringir.) Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði við þessu í mars 2020 og það er ekki hægt að vísa í einhvern pening sem skutlað er í geðheilsuteymi. (Forseti hringir.) Það þarf alvöruaðgerðir, aðgerðaáætlun og ég kalla eftir henni.