152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

uppbygging geðdeilda.

14. mál
[17:07]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Það kom ekki beint fram spurning. Við hv. þingmaður erum ekki í sama stjórnmálaflokki og það skín í gegn hérna. Það er líka bara gott og til þess er þessi salur og þessi ræðustóll. Mér finnst ekki endilega mikilvægt að þessi þjónusta sé inni á stofnun sem heitir Landspítali en mér finnst mikilvægt að við eigum góðan geðheilbrigðisspítala og velti bara upp þeim möguleika að hann þurfi kannski ekki að vera Landspítali. Þá má velta fyrir sér: Bíddu, af hverju finnst mér það? Ég verð að viðurkenna það, hafandi verið í fimm ár á þingi og nýsest í fjárlaganefnd, að mér þykir gegnsæi fjármuna sem fara inn á Landspítalann mjög ábótavant. Ég á ofboðslega erfitt með að sjá nákvæmlega hvað er verið að gera fyrir hvaða pening og hvað hlutirnir kosta. Það er ein af ástæðunum fyrir því. Það er líka ástæða að mér finnst umræða um heilbrigðismál kristallast of mikið um Landspítalann. Og ég ítreka enn og aftur: Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum öflugan og góðan Landspítala. Það sem ég er að tala um núna snýr eingöngu að stjórnskipulagi, hefur ekkert með það frábæra fólk að gera sem starfar innan spítalans því að hann væri auðvitað ekki neitt nema með því ágæta fólki sem þar er.

Hv. þingmaður kom inn á þingsályktun um endurgreiðslu vegna sálfræðiþjónustu sem er nú mál sem ég var meðflutningsmaður á og studdi og finnst brýnt að við komum í gagnið hið allra fyrsta. Ég átta mig á því að við þurfum að búa til eitthvert regluverk í kringum það. En vegna þess að hv. þingmaður nefnir það þá er þetta lýðheilsumál, sem ég hef mikið rætt um. Ég held að með bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu myndum við spara í þriðja stigs þjónustunni sem er spítalaþjónustan, hvort sem það er geðdeildin eða aðrir þættir þjónustunnar. (Forseti hringir.) Ég held því að til lengri tíma litið sé það þar sem fókusinn okkar ætti að vera.